Erlent

Þurfa 100 milljarða evra í sjóð

Evrópusambandið telur að 100 milljarða evra þurfi í sjóð til hjálpar fátækum ríkjum vegna loftslagsbreytinga. Allt að helmingur þeirrar upphæðar eigi að koma frá ríkjum víða um heim.

Leiðtogar ríkja sambandsins segjast ætla að leggja sanngjarna upphæð í sjóðinn en hafa þó ekki komið sér saman um það hversu há hún verður. Sjóðurinn á að hvetja fátækari ríki til þess að nota minni orku, vernda skóga og auka notkun endurnýjanlegrar orku.

Umhverfisverndarsinnar hafa gagnrýnt Evrópusambandið harðlega og segja samkomulagið ekki gera nægilegt gagn. Þeir segja að með víðtækari aðgerðum hefði verið hægt að setja fordæmi fyrir Bandaríkin og Kína. Þannig hefði verið hægt að setja pressu á ríkin og fá þau til að samþykkja að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember. Þar verður þess freistað að gera nýtt samkomulag um losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands er þvert á móti á þeirri skoðun að aðgerðir Evrópusambandsins séu skref í átt að slíku samkomulagi. - þeb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×