Innlent

Alvarlegt ef tækifærin tapast

Hildur Björnsdóttir Formaður Stúdentaráðs vill að hugmyndir þess fái aukið vægi í niðurskurðarvinnu innan skólans.fréttablaðið/anton
Hildur Björnsdóttir Formaður Stúdentaráðs vill að hugmyndir þess fái aukið vægi í niðurskurðarvinnu innan skólans.fréttablaðið/anton

„Verði niðurskurður á fjárveitingum til háskólans til þess að samstarfssamningar við erlendar menntastofnanir falli niður þá er það alvarlegt mál," segir Hildur Björnsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Það gefur auga leið að það er frábært tækifæri fyrir nemendur að fara í skiptinám til margra af bestu skólum heims með því einu að greiða aðeins skráningargjöldin."

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, sagði í viðtali við Fréttablaðið á fimmtudag að hún óttaðist að niðurskurður til skólans kæmi niður á vísindum og rannsóknum. Það er framlag HÍ þegar samstarfssamningar við afburða menntastofnanir eru gerðir. Tapist gæði þess starfs vegna niðurskurðar sé samstarfið við erlenda skóla í hættu.

Hildur segir að stúdentaráð hafi farið fram á að koma beint að því hvar niðurskurðarhnífurinn komi niður innan skólans. „Við teljum að hægt sé að forgangsraða innan stjórnsýslunnar og grípa til aðgerða sem hafa ekki bein áhrif á gæði námsins," segir Hildur. Stúdentaráð hefur lagt fram tillögur í þessum anda í háskólaráði. „Það eru teknar stórar ákvarðanir þessa dagana sem hafa bein áhrif á okkur. Við höfum því miður ekki fengið gott viðmót við að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Við erum mjög ósátt við það." - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×