Erlent

Uppruni risaeðlanna í Suður-Ameríku

Nýja risaeðlan Tawa Hallae er nefnd eftir sólguðnum Tawa og steingervingafræðingnum Ruth Hall.
Nýja risaeðlan Tawa Hallae er nefnd eftir sólguðnum Tawa og steingervingafræðingnum Ruth Hall.

Nýjar rannsóknir á risaeðlusteingervingum, sem fundust í Nýju-Mexíkó, hafa aukið til muna skilning vísindamanna á uppruna og þróun þessara stóru lífvera.

Meðal annars þykja þessar nýju upplýsingar renna stoðum undir þá kenningu að risaeðlurnar hafi upphaflega komið frá Suður-Ameríku og breiðst þaðan út um heiminn. Á þeim tíma höfðu heimsálfurnar ekki greinst í sundur heldur voru saman í einum stórum landfleka, þannig að dýr áttu auðvelt með að fara á milli heimshluta.

Í nýjasta hefti tímaritsins Science er grein um nýju rannsóknirnar.

Steingervingarnir sem fundust í Nýju-Mexíkó eru af risaeðlutegund sem hlotið hefur nafnið Tawa Hallae. Þetta var tveggja til fjögurra metra löng kjötæta sem fyrst kom fram á sjónarsviðið fyrir um 213 milljón árum, en fyrstu risaeðlur veraldar eru taldar hafa komið fram fyrir um 230 milljón árum.

„Þessi nýja risaeðla, Tawa Hallae, breytir skilningi okkar á samskiptum fyrstu risaeðlanna,“ segir Randall Irmis, einn höfunda greinarinnar.

Yfirumsjón með nýju rannsóknunum hafði Sterling J. Nesbitt, vísindamaður við Texas-háskóla í Austin.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×