Innlent

Bundnir við bryggju eins og beljur við bása

Sjómennirnir á loðnuskipinu Lundey segjast vera bundnir við bryggju eins og beljur við bása meðan milljarðaverðmæti syndi framhjá þjóðarbúinu. Þeir segja ranga þéttleikastuðla Hafrannsóknastofnunar við mælingu loðnutorfa koma í veg fyrir að grænt ljós verði gefið á loðnuveiðar.

Lundey liggur í Reykjavíkurhöfn en sjómennirnir vildu miklu frekar vera úti fyrir suðurströndinni að moka upp loðnu, úr torfunni risastóru sem þeir sigldu yfir við Ingólfshöfða í byrjun vikunnar.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson mældi torfunar tvisvar og var niðurstaðan í bæði skiptin hundrað þúsund tonn. Fimmtán þúsund tonn vantaði upp á að komast í tilskilið lágmark til að leyfa veiðar. Arnþór Hjörleifsson, stýrimaður á Lundey, telur hins vegar út frá 25 ára reynslu á sjó að torfan hafi verið 200-300 þúsund tonn. Stýrimaðurinn á Lundey vill meina að Hafró noti ekki rétta þéttleikastuðla þegar torfur séu mældar nærri fjöru eins og við Ingólfshöfða.

Stefán Einarsson háseti segist strax vilja sigla út til að fara að veiða. Það sé óþolandi meðan verðmæti syndi frá þjóðarbúinu að vera bundinn við bryggju eins og beljur við bása.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×