Erlent

Segir tóma blekkingu að Noregur standi utan ESB

Fredrik Sejersted segir að Evrópska efnahagssvæðið verði enn undarlegra fyrirbæri ef Ísland fari yfir í Evrópusambandið.Fréttablaðið/GVA
Fredrik Sejersted segir að Evrópska efnahagssvæðið verði enn undarlegra fyrirbæri ef Ísland fari yfir í Evrópusambandið.Fréttablaðið/GVA
„Það er tóm blekking að Noregur standi utan við Evrópusambandið,“ sagði Fredrik Sejersted, formaður Evrópuréttarstofnunar Óslóarháskóla, á morgunverðarfundi um stöðu Noregs í Evrópu sem haldinn var í Norræna húsinu í gær.

Síðan Evrópska efnahagssvæðið var stofnað fyrir fimmtán árum hefur það vaxið mjög að umfangi, bæði vegna þess að aðildarríkjum ESB hefur fjölgað úr 15 í 27, lagasafnið hefur vaxið úr 1.500 lagagerningum í 6.000, og svo hefur framkvæmd og túlkun laganna teygt áhrifasvið þeirra inn á æ fleiri svið samfélagsins.

Sejersted, sem er prófessor í stjórnskipunar- og Evrópurétti, segir Norðmenn jafnvel duglegri en sum af nýrri aðildarríkjum Evrópusambandsins við að innleiða nýjar reglur frá Brussel, þannig að í raun geti tengsl Noregs við sambandið talist nánari en tengsl sumra aðildarríkjanna. Sú blekking að Noregur sé alls ekki í þessum nánu tengslum við Evrópusambandið, heldur standi utan við, skekkir síðan alla umræðu í Noregi um Evrópusambandið.

Þróun mála hér á landi hefur hins vegar mikil áhrif á framhald mála í Noregi: „Ísland stjórnar norsku Evrópusambands­umræðunni,“ segir Sejersted.

Sjálfur vonast hann til þess að Ísland samþykki aðild að Evrópusambandinu, ekki vegna þess að hann hafi sérstaka skoðun á því hvort aðild sé góð eða slæm fyrir Ísland, heldur vegna þess að þá færi af stað umræða um málið í Noregi. Sú umræða hafi í reynd legið niðri í fimmtán ár, eða síðan Norðmenn felldu aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Flestum í Noregi er illa við Evrópska efnahagssvæðið,“ segir Sejersted en telur samt ólíklegt að Norðmenn gangi í ESB, jafnvel þótt Evrópska efnahagssvæðið verði æ undarlegra fyrirbæri án Íslands, ekki síst ef nokkur örríki í Evrópu bættust í hópinn.

Það var Háskólinn á Bifröst sem efndi til morgunverðarfundarins í Norræna húsinu. Að loknu erindi Sejersteds tóku til máls þau Elvira Mendez, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst.

„Ég spái því að Ísland gangi ekki í ESB í fyrirsjáanlegri framtíð,“ sagði Eiríkur Bergmann. Það væri þá helst ef efnahagsástandið héldi áfram að versna. „Þá gætu Íslendingar í augnabliks geðveiki átt það til að segja já, en á venjulegum degi munu þeir segja nei.“

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×