Innlent

Hverfislöggæslu haldið áfram

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/GVA
Hverfislöggæslustöðvar verða áfram með fast aðsetur í þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Hugmyndir um að leggja niður hverfislöggæslustöðvar í Breiðholti og Grafarvogi sem lagðar voru fram af hálfu lögreglunnar voru nýverið verið kynntar borgarstjóra.

Af því tilefni voru Stefán Eiríksson lögreglurstjóri og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn gestir borgarráðs á fundi ráðsins í dag.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að þeir hafi lagt áherslu á að við útfærslu tillagnanna yrði þess gætt að viðhalda viðveru og þjónustu lögreglunnar á þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Það atriði hefur valdið mestum áhyggjum einkum í úthverfum borgarinnar, að sögn Dags.

Í kjölfar heimsóknarinnar sameinaðist borgarráð um bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í málinu. Gríðarlega mikilvægt er að leiðarljós skipulagsbreytingar löggæslunnar verði að auka og efla sýnilega löggæslu í hverfum borgarinnar, segir í bókuninni.

,,Þeim yfirlýsingum er fagnað sérstaklega að við útfærsluna verði tryggt að hverfislöggæsla verði með fast aðsetur í þjónustumiðstöðvum borgarinnar þannig að áfram verði tryggt að það árangursríka og þverfaglega samstarf sem þar hefur þróast verði fest í sessi. Óskað er eftir því að náið samráð verði haft við íbúa, íbúasamtök, hverfaráð og starfsfólk þjónustumiðstöðva við frekari útfærslu hugmyndanna og tillögur um breytt skipulag verði lagðar fyrir borgarráð um leið og þær liggja fyrir þannig að borgarráð geti tekið afstöðu til þeirra," segir í bókuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×