Innlent

Sárnaði ummæli svila síns

Eiginkona mannsins sem gekk berserksgang að Haukabergi á Barðaströnd í fyrrinótt, er afar ósátt við ummæli svila síns í garð eiginmanns hennar. Hún segir málið eiga sér lengri og flóknari sögu - ekkert réttlæti þó gjörðir eiginmannsins. Hún segir mann sinn barngóðan.

„Mér sárnar alveg svakalega hvað hann leyfir sér að segja," segir Vilborg Gunnarsdóttir, eiginkona mannsins sem gekk berserksgang og lagði íbúðarhúsið að Haukabergi í rúst. Í dag steig svili Vilborgar fram og lýsti því meðal annars yfir að börnin hans væri hrædd við að koma með börnin sín að Haukabergi af ótta við manninn. Þau ummæli valda Vilborgu mestum sárindum og segir hún mann sinn vera einkar barngóðan. „Börn dýrka hann."

Þór sagði í viðtali við fréttastofu í dag að frá því að kona hans og systir hennar, sem eru systir mannsins, hefðu keypt íbúðarhúsið að Haukabergi hefði maðurinn ekki látið þær í friði. Hann hafi hótað því að þær fengju aldrei frið á staðnum.

Á sér langa sögu



Vilborg segir málið eiga sér mun lengri sögu. Upphaflega hafi maður hennar reynt að fá húsið á Haukabergi keypt ásamt bróðursyni sínum. „Þeir hættu að bjóða þegar þeir voru búnir að bjóða hverju systkini fyrir sig hálfa milljón. Þeir vildu ekki fara hærra," segir Vilborg.

Vilborg segir að á þeim tíma hafi systkinin átt húsið að nafninu til því móðir þeirra hafi útbúið pappíra þess efnis að börnin ættu jörðina og húsið saman að einum bróður undanskildum. Sá átti litla spildu á jörðinni. „Þessir pappírar lágu hjá sýslumanni. Það var hinsvegar ekki hægt að þinglýsa þeim vegna þess að gamla konan var ekki dáin," segir Vilborg.

Hún segir að systkinin hafi tekið rekstur hússins að sér í sameiningu. „Það voru allir reyna að lifa í sátt og samlyndi og skipta með sér verkum. Það gekk ekki nógu vel," segir Vilborg. Maður hennar var á skaki frá Tálknafirði og ætluðu þau að nota allar landlegur til að vinna í húsinu að hennar sögn. „Þá vorum við að yfirtaka húsið að mati systranna," segir Vilborg.

Jörðina í heild er ekki hægt að selja þar sem úthagi hennar er óskiptur að sögn Vilborgar. Bróðir mannsins hennar hafi hinsvegar fengið lóðaleyfi á staðnum og byggt þar bústað. „Svo kom reyndar fram smá ósætti á milli bræðranna en það leystist alveg," segir Vilborg.

Bannað að hitta móður sína



Vilborg segir að síðasta vor hafi maður hennar ákveðið að fá lóðarrleigusamning að Haukabergi. Því hafi hann talað við móður sína og hún samþykkt það. „Þá urðu systurnar brjálaðar því önnur þeirra hafði ætlað að byggja bústað á þessum stað sem maðurinn minn valdi. Hann sagði hinsvegar bara: Fyrstur kemur fyrstur fær."

Vilborg segir mann sinn hafa komið að vegg þegar hann hafi ætlað að fá móður sína til að skrifa undir lóðaleigusamninginn. „Systir hans, kona Þórs, var búin að koma því þannig fyrir að hann mætti ekki tala við mömmu sína. Það var búið að hræða gömlu konuna og henni bannað að hleypa honum inn til sín í heimsókn. Þegar hann kom þarna með öðrum manni þá þorði hún ekki að opna."

Vilborg segir að systurnar hafi komið að Haukabergi og reynt að stöðva mann hennar þegar hann var að vinna á svæðinu. „Svo er hann kominn með lóðasamninginn til mömmu sinnar og lét systur sína vita. Þá las hún hann yfir og reyndi að fá í gegn að það mætti ekki girða í kringum sumarbústaðinn en gamla konan skrifaði upp á og honum var þinglýst," segir Vilborg.

Systkinin koma aldrei



Sumarbústaður Vilborgar og mannsins hennar er flokkaður sem svokallað stöðuhús. Þau hafi hinsvegar ekki fengið leyfi byggingarfulltrúa Vesturbyggðar til að skrá hann sem sumarbústað. Ástæðan sé sú að ekki megi skrá fleiri en þrjú sumarhús á einni landareign. „Þeir líta á Haukaberg og Brekkuvelli sem eitt land þó það séu tveir þinglýstir eigendur. Þeir sendu okkur bréf um að það væri of margir bústaðir í landi Haukabergs. En það eru þrír sem eru í óskiptu landi milli bæjanna. Tveir sumarbústaðir eru í landi Brekkuvalla og svo er bústaður bróður hans í landi Haukabergs."

Vilborg segir systkinin ekki koma oft að Haukabergi. „Í fyrrasumar vorum við í tjaldvagni þarna. Þá kom enginn innfetir. Sumariðáður vorum við með hjólhýsi á staðnum og þá það kom enginn til að gista í húsinu. Svo segir Þór að börnin hans þori ekki að koma, þau hafa aldrei verið þarna hvort sem er," segir Vilborg.



Fréttu af sölu hússins fyrir tilviljun

Vilborg segir það hafa verið fyrir einskæra tilviljun sem bræðurnir komust að því að systurnar væru að kaupa húsið. „Í haust var allt í einu byrjað að setja kjöljárn og þakkanta á húsið. Systurnar sögðu að mamma þeirra hefði viljað þetta. Það var enginn að spá neitt meira í það. Svo bara fyrir tilviljun er dóttir mín í heimsókn hjá ömmu sinni í vor og þá eru systurnar að láta hana skrifa undir einhverja samninga. Hún spurði ömmu sína hvað hún væri að skrifa undir en fékk engin svör. Svo kom hún til okkar og sagði okkur frá þessu svo bræðurnir fóru að kanna málið. Þá kom í ljós að þær voru búnar að láta gömlu konuna selja sér húsið á milljón. Enginn af bræðrunum vissi það," segir Vilborg.



Ekkert afsakar gjörðir mannsins



Hún segir að maður sinn hafi haldið rónni og ekki verið með neinar hótanir. Hann hafi að vísu sagst ætla sá til þess að enginn gæti verið þarna í friði, hann ætlaði þó ekki að sækja að fólki beint, heldur frekar vera með læti og hávaða . Í gærkvöldi hafi hann svo farið yfir strikið. „Það afsakar ekkert gjörðir hans í gær. Alls ekki," segir Vilborg. Hún telur þó mikilvægt að hlið eiginmannsins komi fram.

Aðspurð hvernig maður hennar hefði það í dag segir hún: „Hann er ótrúlega brattur. En honum líður auðvitað ekkert vel með þetta."

Hún segist hafa fengið það „nánast" staðfest að ekki hefði verið skotið úr byssu að Haukabergi í fyrrinótt. Hún segir mann sinn hafa verið sofandi í bústaðnum þeirra þegar sérsveitina bar að garði. Menn sveitarinnar hafi hinsvegar brotið rúðu á bústaðnum til þess að handtaka hann.

Hún er nú á leið vestur til fundar við manninn sinn sem er kominn aftur að Haukabergi.






Tengdar fréttir

Víkingasveit yfirbugaði Barðastrandarbyssumann 2002

Maðurinn sem sérsveit lögreglu yfirbugaði á Barðaströnd í morgun hefur áður komið við sögu lögreglu vegna svipaðra mála. Hann var yfirbugaður af Víkingasveit lögreglunnar í ágúst 2002 eftir þriggja klukkustunda umsátur fyrir utan heimili mannsins á Álftanesi.

Byssumaður gekk berserksgang á Barðaströnd

Lögreglunni á vestfjörðum barst tilkynning um miðnætti að maður gengi berserksgang á Barðaströnd, vopnaður skotvopni. Lögreglan á Ísafirði og Patreksfirði fór á staðinn en einnig var óskað aðstoðar sérsveitar lögreglu sem flutt var vestur með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Berserksgangur á Barðaströnd hluti af fjölskylduerjum - myndir

Maðurinn sem handtekinn var af sérsveit lögreglunnar á Barðaströnd í fyrrinótt, rústaði hús sem er í eigu systra hans. Systurnar höfðu nýverið keypt húsið af móður sinni. Mágur mannsins segir börnin sín ekki lengur þora að koma með barnabörnin á staðinn vegna mannsins. Maðurinn er laus úr haldi lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×