Lífið

„Ég er miklu flottari sem Geir Haarde“

Breki Logason skrifar
Örn Árnason leikari.
Örn Árnason leikari.

Örn Árnason leikari segist þurfa að horfa betur á Skaupið til þess að geta fellt endanlegan dóm yfir frammistöðu þeirra sem að því stóðu. Örn hefur tekið þátt í mörgum Skaupunum og fannst margt í Skaupi gærkvöldsins mjög vel gert. Hann bíður Kjartan Guðjónsson velkominn í hóp hinna útvöldu sem leikið hafa Davíð Oddsson og segist sjálfur miklu flottari en Jóhannes Haukur sem Geir H. Haarde.

„Mér fannst margt mjög gott en á köflum fannst mér þetta svolítið hæggengt, það er það sem ég á eftir að skoða betur og sjá hversvegna svo var. En það voru flottir sprettir í þessu," segir Örn sem telur að Skaupið hafi frekar verið skrifað fyrir yngri kynslóðina með tilvitnanir í bíómyndir og aðrar sjónvarpsstöðvar sem kannski ekki allir hafi áttað sig á.

„En ég áttaði mig á því þar sem ég er nú að vinna við þetta," segir Örn sem fagnar því að Kjartan Guðjónsson sé kominn í hóp hinna útvöldu sem túlkað hafa Davíð Oddsson.

„Ég er nú að vinna með Kjartani um þessar mundir og þori því ekki að segja neitt annað en að hann hafi verið æðislegur. Hann var nú eitthvað að hrauna yfir mig um daginn og sagði að ég væri ekkert líkur Davíði. Það er allt í lagi að leyfa þessum unglingum að hafa sig í frammi," segir Örn og hlær.

Hann segir nokkra hafa spreytt sig á Davíð Oddssyni í gegnum tíðina og nefnir þá Jóhann Sigurðarson, Magnús Ólafsson og svo Kjartan. „Ég er lang bestur af þeim og stend upp úr, þó ég sé bara meðalmaður á hæð."

Frammistaða Jóhannes Hauks Jóhannessonar sem Geir H. Haarde vakti nokkra athygli í Skaupinu í gærkvöldi. „Ég er miklu flottari maður," segir Örn og hlær en hann hefur einnig leikið Geir í gegnum árin. „Hann er svo nýbyrjaður í þessum bransa, það vantar alla þyngd í hann."

Örn er þekktur sprengjufíkill og það var ekkert lát í því í gærkvöldi. „Ég sprengi alltaf mikið og réttlæti það með því að ég nota þessi klassísku fíkniefni í mjög litlum mæli. Flugeldaneysla mín vegur því upp á móti því sem ég hefði annars reykt og drukkið á árinu. En ég hef alveg ofboðslega gaman af þessu og ætla ekki að leggja þennan sið af."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.