Lífið

Fúlar á móti styðja Grensásátak Eddu Heiðrúnar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
„Það má segja að fúlar á móti séu mjög glaðar með þetta," segir Edda Björgvinsdóttir, leikkona.

Hún, ásamt stöllum sínum þeim Helgu Brögu og Björku Jakobsdóttur, hefur nú helgað fyrstu haustsýningu uppistandsins Fúlar á móti söfnunarátaki Eddu Heiðrúnar Bachman til eflingar Grensásdeildar Landspítalans.

Edda Heiðrún hefur unnið ötullega í þágu Grensásdeildarinnar í sumar, meðal annars með átakinu Á rás fyrir Grensás, og tekist vel upp að safna fé til að bæta og stækka deildina. Gjöf þeirra vinkvenna kemur því í beinu framhaldi af þessu átaki hennar.

„Það var ekkert um annað að ræða. Það vilja auðvitað allir taka þátt og styrkja þetta verkefni, og maður er montinn af því að fá að styðja við bakið á þessu," segir Edda Björgvinsdóttir, glöð í bragði með að geta lagt góðu málefni lið.

Styrktarsýning Fúlla á móti verður nú á föstudagskvöldið klukkan 20, en allur ágóði sýningarinnar rennur til söfnunarátaksins. Hægt er að nálgast miða í Loftkastalanum og á miðasöluvefnum Miði.is. Fúlar á móti er uppistand um síðara skeiðið eftir Jenny Eclair og Judith Holder í íslenskri útfærslu Gísla Rúnars Jónssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.