Lífið

Upplestur í kvennafangelsinu

í fangelsi Sindri Freysson í kvennafangelsinu í Kópavogi þar sem hann las upp úr sinni nýjustu bók.fréttablaðið/pjetur
í fangelsi Sindri Freysson í kvennafangelsinu í Kópavogi þar sem hann las upp úr sinni nýjustu bók.fréttablaðið/pjetur

„Þetta gekk gríðarlega vel. Þetta var mjög áhrifamikil og eftirminnileg stund,“ segir rithöfundurinn Sindri Freysson.

Hann las fyrir skömmu upp úr nýjustu bók sinni, Dóttir mæðra minna, í kvennafangelsinu í Kópavogi. Bókin gerist að miklu leyti í Holloway-kvennafangelsinu á Englandi þar sem íslensk sautján ára stúlka situr inni árið 1941. „Þegar bókin var nýkomin út sagði ég strax að mig langaði að lesa upp í kvennafangelsinu í Kópavogi,“ segir Sindri.

„Þegar ég var í London að vinna heimildarvinnu krækti ég mér í rit sem innihalda ljóð og sögur kvenna sem sitja í breskum fangelsum nútímans. Það opnaði mér glufu inn í hugarheim kvenfanga,“ segir hann. „Sú mynd varð enn skýrari þegar ég hitti íslenska stelpu sem var nýbúin að afplána dóm í frönsku fangelsi fyrir dópsmygl.“

Í framhaldinu ákvað Sindri að endurgjalda greiðann ef svo má segja með því að lesa upp í kvennafangelsinu, þar sem karlar eru reyndar líka á meðal fanga. „Þau spurðu margra spurninga og þetta var greinilega vel þegið. Mér fannst það reyndar pínu einkennilegt að vera að lesa fyrir fanga upp úr bók sem segir frá líðan fanga en það voru engar athugasemdir gerðar,“ segir hann og bætir við:

„Ég gæti vel hugsað mér með seinni tíma útgáfu að gera eithvað sambærilegt. Fólk var þakklátt fyrir þetta og þetta var tilbreyting frá þeirri ömurlegu rútínu sem fylgir því að vera í fangelsi.“

Bókasafn fangelsisins fékk einnig að gjöf allar þær bækur sem bókaforlagið Veröld gefur út fyrir jólin og féll það vel í kramið á meðal fanganna.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.