Innlent

„Þið eruð fullfær um að stúta ykkur sjálf"

Mynd/Anton Brink
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Icesave málið snúist ekki um að koma ríkisstjórninni frá völdum. Stjórnin sé fullfær um að stúta sér sjálf. Þingmenn tókust á um frumvarp ríkisstjórnarinnar vegna Icesave reikninga Landsbankans við upphaf þingfundar í dag.

Þorgerður spurði Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, út í um ummæli fjármálaráðherra frá því í gær. Hún sagði Evrópusambandið hafa haft uppi grímulausar hótanir vegna Icesave málsins. Endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði verið haldið í gíslingu vegna deilunnar.

Jóhanna sagði að um misskilning væri að ræða. Evrópusambandið hefði ekki haft uppi hótanir. Þetta hefðu bæði Carl Bildt og Ole Rehn staðfest. Fjármálaráðherra hefði í ummælum sínum verið að vísað til hótanna Breta haustið 2008.

Þorgerður sagði ráðherra ríkisstjórnarinnar enn og aftur vera margsaga. Þá sagði hún stjórnarandstöðuna ekki vera reyna að koma ríkisstjórninni frá völdum með andstöðu sinni við Icesave frumvarpið síðustu daga. Andstaðan væri ákall til ríkisstjórnarinnar um að sína samstöðu.

„Þetta snýst ekki um að koma ykkur frá. Þið eruð fullfær um að stúta ykkur sjálf. Þetta snýst um það að við sínum samstöðu í málefnum er tengjast Icesave. Samstöðu þings og samstöðu þjóðar," sagði Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×