Innlent

Þriggja ára stelpa fannst á ráfi - Lögreglan kom aldrei

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Frá tjaldsvæðinu í Tungudal. Myndin tengist málinu ekki á nokkurn hátt.
Frá tjaldsvæðinu í Tungudal. Myndin tengist málinu ekki á nokkurn hátt.
Kona sem hafði samband við fréttastofu vildi koma eftirfarandi ábendingu á framfæri við fréttastofu varðandi löggæslu úti á landi.

Um síðastliðna helgi dvaldi hún á tjaldstæðinu á Stykkishólmi á bak við N1 bensínstöðina. Á laugardagskvöldinu um klukkan tíu kemur fólk að tjaldi hennar og spyr hvort hún og maður hennar kannist við lítið stúlkubarn sem var með þeim.

Þetta var lítil þriggja ára stúlka sem fannst á ráfi við salernisaðstöðuna á svæðinu um klukkan níu, klædd í bol, buxur og á sokkaleistunum.

Stelpan vissi ekki hvar tjaldið hennar var og gat litlar upplýsingar veitt um samferðamenn sína enda ung að árum. Þegar fólkið sem fann hana hafði gengið um allt svæðið, sem var yfirfullt, var hringt í lögregluna sem sagðist myndu koma eftir 40 mínútur.

Lögreglan kom þó aldrei og stúlkan litla var í umsjá þessa ókunnuga fólks í um þrjár klukkustundir eða þar til móðirin uppgötvaði að barnið væri horfið.

Flestir sem voru á tjaldsvæðinu vissu af þessari litlu stúlku og var fólk almennt undrandi á seinagangi lögreglunnar þegar vitað var að búið var að ganga um svæðið en fjöldi fólks tók þátt í leitinni fyrir rest þegar spurðist út að foreldrarnir væru enn ófundnir.

Loks þegar móðirin uppgötvaði að barnið væri horfið, virtist lögreglan lítinn áhuga hafa á að tala við hana. Það þótti fólkinu á tjaldsvæðinu afar undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að það getur varla talist eðlileg umönnun að skilja lítið þriggja ára barn eftir eftirlitslaust í 3 klukkustundir að kvöldi til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×