Viðskipti innlent

Hermann aftur forstjóri Tals

Hermann Jónasson
Hermann Jónasson
Fjármálaráðuneytið úrskurðaði í gær að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra bæri að afmá tilkynningu um breytingu á framkvæmdastjórn og prókúruhafa IP-fjarskipta ehf. (Tals) frá 12. janúar sl. þess efnis að Ragnhildur Ágústsdóttir tæki við forstjórastarfinu og prókúru af Hermanni Jónassyni.

Í samræmi við þessa niðurstöðu ráðuneytisins var skráningu í morgun breytt til fyrra horfs og Ragnhildi í framhaldinu vikið frá störfum. Hefur Hermann Jónasson nú tekið við sínu fyrra starfi.

Í úrskurði fjármálaráðuneytisins er fallist á kröfu þeirra Jóhanns Óla Guðmundssonar og Hermanns Jónassonar, sem fara með 49% hlut í Tali, um að fyrirtækjaskrá hafi ekki verið heimilt hinn 12. janúar sl. að staðfesta breytingar á stjórn Tals þar sem ákvarðanir um þær hafi ekki verið teknar með lögmætum hætti, í samræmi við samþykktir félagsins og lög um einkahlutafélög.

Ákvörðunin á stjórnarfundi Tals 30. desember 2008 um brottvikningu Hermanns og ráðningu Ragnhildar var tekin af tveimur fulltrúum Teymis hf. í stjórn Tals, þeirra Þórdísar K. Sigurðardóttur og Ólafs Þórs Jóhannessonar gegn atkvæði Jóhanns Óla Guðmundssonar og að fjórða stjórnarmanninum, Hermanni Jónassyni fjarstöddum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóhanni Óla Guðmundssyni starfandi stjórnarformanni IP-fjarskipta ehf.


Tengdar fréttir

Eðlilega staðið að rekstri Tals

Teymi mótmælir harðlega fullyrðingum um að félagið hafi staðið óeðlilega að rekstri Tals. Fullyrðingar um að Teymi hafi hlutast til um verkefni stjórnar eftir að fulltrúar Samkeppniseftirlitsins tóku þar sæti eru stórlega orðum auknar, að fram kemur í tilkynningu frá Teymi sem Þórdís J. Sigurðardóttir og Ólafur Þ. Jóhannesson skrifa undir. Einu afskipti Teymis af stjórnarsetu hinna óháðu stjórnarmanna fólust í áréttingu félagsins um að lögum væri fylgt í hvívetna.

Íhuga frekari aðgerðir gegn Teymi

Þær ástæður sem stjórnarmenn tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu í stjórn IP fjarskipta eða Tals, gáfu fyrir úrsögn sinni í gær gefa tilefni til grunsemda um áframhaldandi brot Teymis gagnvart Tali og samkeppnislegu sjálfstæði þess að sögn Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Kæra ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Teymi segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að skipa nýja fulltrúa félagsins í stjórn Tals óviðunandi og henni verði áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gæti leitt það af sér að félagið hefði engin völd í stjórn Tals þrátt fyrir að eiga 51% hlut í félaginu.

Fulltrúum Teymis vikið úr stjórn Tals

Með bráðabirgðaákvörðun í dag hefur Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um að fulltrúar Teymis hf. í stjórn IP-fjarskipta hf. (Tali) víki og í stað þeirra skuli skipaðir tveir óháðir einstaklingar sem tilnefndir verða af Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið beitir Teymi dagsektum

Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun í dag lagt þriggja milljóna króna dagsektir á Teymi hf. þar sem fyrirtækið hefur ekki farið að fyrirmælum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á stjórn IP-fjarskipta (Tals), sem mælt var fyrir um í ákvörðun til bráðabirgða frá 26. janúar sl.

Saka Teymi um viðskiptasóðaskap

Í greinargerð sem þeir Þórhallur Örn Guðlaugsson og Hilmar Ragnarsson, sendu frá sér um leið og þeir sögðu sig úr stjórn IP fjarskipta eða Tals, kemur fram að þeir hafi aldrei kynnst öðrum eins viðskiptasóðaskap og þeir hafi orðið vitni að í þá fáu daga sem þeir störfuðu í stjórn Tals. Tvímenningarnir voru tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu og sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri þess við fréttastofu í dag að ástæður úrsagnar þeirra veki grun um áframhaldandi brot Teymis gagnvart Tali.

Eigendur Tals eins og foreldrar í forræðisdeilu

Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Guðlaugsson, sem sögðu sig úr stjórn Tals á dögunum vegna deilna í hlutahafahópi fyrirtækisins, segja deilurnar minna á illvígt forræðismál þar sem foreldrarnir berjist svo hatrammri baráttu að barnið gleymist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×