Viðskipti innlent

Eðlilega staðið að rekstri Tals

Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Teymis.
Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Teymis.
Teymi mótmælir harðlega fullyrðingum um að félagið hafi staðið óeðlilega að rekstri Tals. Fullyrðingar um að Teymi hafi hlutast til um verkefni stjórnar eftir að fulltrúar Samkeppniseftirlitsins tóku þar sæti eru stórlega orðum auknar, að fram kemur í tilkynningu frá Teymi sem Þórdís J. Sigurðardóttir og Ólafur Þ. Jóhannesson skrifa undir. Einu afskipti Teymis af stjórnarsetu hinna óháðu stjórnarmanna fólust í áréttingu félagsins um að lögum væri fylgt í hvívetna.

Í tilkynningunni segir að deilurnar sem verið hafa í eigendahópi Tals séu hluthafadeilur og snúist ekki um samkeppnislegt sjálfstæði Tals. ,,Við stofnum félagsins var samið um að Teymi gæti á þessu ári keypt hlut minnihlutaeigenda á tilteknu verði, sem tæki mið af rekstrarárangri félagsins. Í ljósi breyttra rekstraraðstæðna er útlit fyrir að minnihlutaeigendur fái einungis brot af því verðmæti sem þeir stefndu að." Teymi lítur svo á, að sú staðreynd sé orsök deilnanna enda hafi samkeppni á fjarskiptamarkaði aldrei verið meiri en eftir stofnun Tals á síðasta ári.

,,Fyrrverandi forstjóra Tals, sem enn situr í stjórn félagsins í umboði minnihlutaeigenda, var vikið úr starfi í desember sl. fyrir alvarleg brot á skyldum sínum. Fullyrðingar um að brottvikning hans og ráðning nýs forstjóra hafi verið ólögmæt eru rangar. Sá úrskurður Fjármálaráðuneytisins, sem vísað hefur verið til í því samhengi, hefur verið afturkallaður af ráðuneytinu auk þess sem hann kvað ekki á um lögmæti brottvikningarinnar."

Teymi harmar að minnihlutaeigendur í Tali skuli hafa valið að útkljá hluthafadeilur með því að draga ítrekað úr trúverðugleika Tals, stjórnenda og starfsmanna félagsins.


Tengdar fréttir

Íhuga frekari aðgerðir gegn Teymi

Þær ástæður sem stjórnarmenn tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu í stjórn IP fjarskipta eða Tals, gáfu fyrir úrsögn sinni í gær gefa tilefni til grunsemda um áframhaldandi brot Teymis gagnvart Tali og samkeppnislegu sjálfstæði þess að sögn Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Fulltrúar Samkeppniseftirlitsins hættir í stjórn Tals

Stjórnarmenn sem Samkeppniseftirlitið tilnefndi í stjórn IP fjarskipta, eða Tals, þann 6. febrúar síðastliðinn hafa báðir sagt sig úr stjórninni. Þeir Þórhallur Örn Guðlaugsson og Hilmar Ragnarsson tóku sæti í stjórninni í stað fulltrúa Teymis að kröfu Samkeppniseftirlitsins.

Saka Teymi um viðskiptasóðaskap

Í greinargerð sem þeir Þórhallur Örn Guðlaugsson og Hilmar Ragnarsson, sendu frá sér um leið og þeir sögðu sig úr stjórn IP fjarskipta eða Tals, kemur fram að þeir hafi aldrei kynnst öðrum eins viðskiptasóðaskap og þeir hafi orðið vitni að í þá fáu daga sem þeir störfuðu í stjórn Tals. Tvímenningarnir voru tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu og sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri þess við fréttastofu í dag að ástæður úrsagnar þeirra veki grun um áframhaldandi brot Teymis gagnvart Tali.

Segja brottvikningu forstjóra Tals ólögmæta

Fram kemur í greinargerð sem þeir Þórhallur Örn Guðlaugsson og Hilmar Ragnarsson, sendu frá sér um leið og þeir sögðu sig úr stjórn IP fjarskipta, eða Tals, að brottvikning Hermanns Jónssonar úr starfi framkvæmdastjóra í desember hafi verið ólögmæt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×