Lífið

Jóhanna Guðrún: Mika glæsilegur en hlédrægur

Jóhanna Guðrún í Malmö ásamt hinum heimsfræga tónlistarmanni Mika.
Jóhanna Guðrún í Malmö ásamt hinum heimsfræga tónlistarmanni Mika.

Í kringum tólf þúsund manns hlýddu á tónleika Jóhönnu Guðrúnar, hins heimfræga Mika og þekktra sænskra tónlistarmanna í Malmö í Svíþjóð síðastliðinn laugardag. „Þetta gekk rosalega vel. Þetta fór fram eins og flestir tónleikar sem ég hef verið að syngja á undanfarið," segir Jóhanna, sem söng Eurovision-lagið Is it True? og Walking on Water af plötu sinni Butterflies and Elvis. Tónleikarnir voru haldnir undir beru lofti og skipulagðir af stærstu útvarpsstöð Svíþjóðar, RIXFM.

Þrátt fyrir að vera aðdáandi Mika, sem sló í gegn með laginu Grace Kelly, gafst Jóhönnu ekki tækifæri til að blanda geði við hann að neinu ráði. „Um leið og hann mætti voru allir ljósmyndar­arnir reknir út og hann var ekkert að spjalla eða svoleiðis. En það var fyndið að sjá hann labba þarna um.

Hann var mjög almennilegur og var líka glæsilegur á sviðinu," segir Jóhanna Guðrún. „Ég hafði það samt í mér að biðja um mynd með honum og fékk það," segir hún og viðurkennir að Mika sé frægasti tónlistarmaðurinn sem hún hafi sungið með á tónleikum.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu fyrir skömmu kemur platan Butterflies and Elvis út víðs vegar um Evrópu á næstu mánuðum á vegum útgáfufyrirtækisins Warner. Jóhanna mun hafa í nógu að snúast við að fylgja henni eftir og hefst sú törn í október og lýkur ekki fyrr en eftir jól.

Hún hlakkar mikið til tónleikaferðarinnar, sérstaklega að fara til Þýskalands. „Það er mjög stór markaður þar og það væri geggjað að komast áleiðis þar," segir hún. Jóhanna er þegar orðin mjög vinsæl í Svíþjóð og situr platan hennar í áttunda sæti á breiðskífulistanum þar í landi.

- fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.