Innlent

Icesave-viðræðurnar þokast af stað á ný

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Framhald verður á viðræðum við Breta og Hollendinga varðandi Icesave málið á næstunni. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í umræðu utan dagskrár um ástæður Breta fyrir því að beita hryðjuverkalöggjöf á Íslandi að lítið hefði þokast í samningaviðræðum um Icesave á þessu ári.

Hann sagðist vonast til þess að á allra næstu dögum verði hægt að segja nánar frá fyrirhuguðum viðræðum í málinu. Össur segir að í tíð nýrrar ríkisstjórnar hafi litlar viðræður átt sér stað auk þess sem fyrri ríkisstjórn hafi lítið gert í málinu á síðustu dögum hennar.

Á því verður nú gerð gangskör þannig að hægt verði að þoka málinu áfram með viðunandi hætti. Siv Friðleifsdóttir var málshefjandi í umræðunni og spurði hún meðal annars að því hvort Jóhanna Sigurðardóttir hefði rætt málið við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta.

Össur svaraði fyrir hönd Jóhönnu og sagðist hann ekki telja að slík samtöl hafi átt sér stað. Hins vegar hefðu farið fram samtöl við sendiherra um að leggja drög að frekari viðræðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×