Lífið

Söfnunarátak Enza nær hámarki í Smáralind

Söfnunarátak Enza hjálparsamtakanna nær hámarki í Smáralindinni í dag, laugardaginn 31. október, með fjölbreyttri dagskrá listamanna. Fram koma meðal annarra Friðrik Ómar og Jógvan, Sigga Beinteins, Stebbi og Eyfi og leikarar Borgarleikhússins flytja atriði úr Söngvaseið. Kynnir er Unnur Birna Vilhjálmsdóttir. Dagskráin stendur yfir frá klukkan 14-16.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökunum sem má sjá í heild sinni hér að neðan:

„Fyrr á árinu hlaut Enza styrk frá Auði Capital til að festa kaup á húsnæði undir Enza-skólann sem starfræktur er í fátækrahverfi skammt frá Höfðaborg í Suður-Afríku. Nú er verið að safna fyrir rekstri skólans og tímabundnu heimili fyrir skjólstæðinga Enza.

Sjö íslenskar konur standa á bakvið starfsemina. Ein þeirra er búsett á svæðinu og sér um starfið sem byggir á menntun og fræðslu til stúlkna og kvenna sem neyðast til að gefa frá sér nýfædd börn sín vegna fátæktar og/eða útskúfunar.

Í mörgum tilfellum er stúlkunum nauðgað, en Suður-Afríka hefur þann vafasama heiður að vera það land þar sem nauðganir eru flestar á heimsvísu. Þar er konu nauðgað á 17 sekúndna fresti samkvæmt könnun Gallup. Verði þær ófrískar í kjölfar nauðgunarinnar eru þær gerðar ábyrgar fyrir nauðguninni og oftar en ekki útskúfaðar út af skömm yfir því að vera barnshafandi utan hjónabands. Yfirleitt eiga stúlkurnar ekki afturkvæmt.

Allt niður í 11 ára gamlar stúlkur eru þannig neyddar út í barneignir, því vegna skorts á heilsugæslu uppgötva þær gjarnan ekki að þær eru barnshafandi fyrr en of seint er að framkvæma fóstureyðingu.

Söfnunin miðar að því að fá mánaðarleg framlög fyrir rekstri skólans auk þess að festa kaup á húsnæði sem verður tímabundið heimili fyrir stúlkurnar á meðan þær eru að fóta sig í tilverunni.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Guðlaugsdóttir, kynningarstjóri söfnunarinnar í síma 899-2320, og einnig er að finna ýmsan fróðleik um samtökin á vefnum www.enza.is"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.