Lífið

Spunnið mestalla sýninguna

Á tánum Vala kemur heim með annað verk frá London. Fréttablaðið/Arnþór
Á tánum Vala kemur heim með annað verk frá London. Fréttablaðið/Arnþór

„Við erum allt í allt 12 sviðslistamenn sem stöndum að sýningunni, þar af tveir Íslendingar, ég og Ástþór Ágústsson," segir Vala Ómarsdóttir, en hún er hluti Bottlefed Ensamble sem sýnir Hold Me Until You Break á artFart í Iðnó. Hópurinn er staðsettur í London og hefur fengið verðlaun fyrir besta frumsamda verkið unnið af hópi á Edinborgarhátíðinni 2007 og fyrir bestu leikstjórn á Lost Theater Festival árið 2006.

„Við erum búin að vinna með þessum hóp alveg stöðugt núna í tvö ár. Við erum hluti af stofnmeðlimum hans eins og hann er núna."

Vala heimsótti Ísland með sviðs-listahópnum Maddid í fyrra, auk þess sem hún stóð fyrir norrænni sviðslistahátíð í London. „Ég er búin að vera úti að vinna með bæði Maddid hópnum, Bottlefed og öðrum leikhóp stöðugt allt árið og er loksins farin að geta lifað af því, sem er frábært. Það er svo rosalega mikið af þessu og svo hörð samkeppni."

„Sýningin er um það hversu mikið við leggjum á okkur til að halda sambandinu gangandi. Þetta er spunasýning þannig að hún breytist í hvert skipti sem við sýnum hana. Bæði tónlistarmennirnir og leikararnir eru að spinna mestalla sýninguna. Við gerum það til þess að hún sé alltaf sönn. Við þurfum að vera alveg hundrað prósent hreinskilin á hverju einasta augnabliki."

Hópurinn verður með vinnustofu á vegum artFart 29. og 30. ágúst og kynnir þar vinnu sína. Hold Me Until You Break er sýnd í kvöld og annað kvöld klukkan átta. Miðasala er í síma 562-9700 og á midi.is. -kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.