Erlent

Látinn laus vegna olíu

Abdelbeset Ali Mohamed al Megrahi
Abdelbeset Ali Mohamed al Megrahi
Jack Straw dómsmálaráðherra Bretlands hefur viðurkennt að olíusamningur hafi ráðið miklu um að einum líbysku Lockerbie morðingjanna var sleppt úr fangelsi. Gordon Brown forsætisráðherra hafði áður harðneitað því.

Það vakti mikla óánægju og ólgu þegar stjórnvöld í Skotlandi ákváðu að sleppa Libyumanninum Abdelbaset al Megra-hi úr fangelsi. Hann var einn þeirra sem dæmdur var í lífstíðarfangelsi fyrir að koma fyrir sprengju í Pan American þotu árið 1988.

Sprengjan sprakk þegar þotan var yfir bænum Lockerbie í Skotlandi. Tvöhundruð og sjötíu manns frá tuttugu og einu þjóðlandi létu lífið.

al-Megrahi er að deyja úr krabbameini og stjórnvöld í Skotlandi segja  að honum hafi verið leyft að snúa heim af mannúðarástæðum.

Því hefur verið haldið fram að olíuauður Libyu hafi átt þar hlut að máli, en því hefur verið hafnað. Í þessari viku harðneitaði Gordon Brown því að olían hefði skipt nokkru máli.

Jack Straw dómsmálaráðherra Bretlands hefur nú viðurkennt að olían hafi vissulega skipt miklu máli.

Óljóst er hvaða áhrif þetta hefur á stöðu Browns. Straw benti á að samningur um lausn Megra-his hafi verið undirritaður fyrir tveim árum, þegar ljóst var að hann myndi deyja úr krabbameini. Tony Blair var þá forsætisráðherra og Straw segist ekki vita til þess að Brown hafi komið nokkuð að málinu.

Og lausn hans var aðeins einn liður í margvíslegu samkomulagi sem gert var við Libyumenn til þess að koma Libyu inn í samfélag þjóðanna, frá því að vera hálfgert útlagaríki.

Um það leyti sem samningurinn var undirritaður var breski olíurisinn BP að sækjast eftir ábatasömum samningi við Libyumenn. Straw segir að hann hafi vissulega horft til þess og ætli ekki að biðjast afsökunar á því.

Þess má geta að BP fékk samninginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×