Lífið

Fjölnir skotspónn gríns í spurningaspili

„Ég var að spila spilið á jóladag og ég get sagt þér, að það var ekki mikil hamingja á bænum,“ segir athafnamaðurinn Fjölnir Þorgeirsson.

Í spurningaspilinu Spurt að leikslokum er spurt um mann sem var atvinnumaður í snóker að eigin sögn og komst í fréttir fyrir frækið björgunarafrek, sem rataði í fréttir víða um heim. Svarið er að sjálfsögðu Fjölnir Þorgeirsson, en hann gerir athugasemd við orðalagið. „Ég hélt að í spurningaspilum ætti að spyrja um staðreyndir,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið atvinnumaður í snóker í fjögur ár, eða þangað til hann varð að hætta vegna axlarmeiðsla.

Fjölnir hafði samband við höfunda spurninganna, lét óánægju sína í ljós og fékk frá þeim afsökunarbeiðni. „Þetta eru bara litlir töffarar – hvolpar með hundalæti. Eða hundar með hvolpalæti. Bara kjánar,“ segir Fjölnir. „Þeir eru búnir að breyta framleiðslunni.“

Ölvir Gíslason, annar höfunda spilsins, staðfestir að athugasemdir hafi borist frá Fjölni og segir að í næstu útgáfu verði þær teknar til greina, ásamt öðrum athugasemdum.

Fjölnir virðist hafa verið höfundum spilsins hugleikinn þar sem honum bregður fyrir í einni spurningu í viðbót. Þar er spurt um órjúfanleg tengsl milli fréttasíðunnar Hestafréttir.is, sem Fjölnir ritstýrir, og kryddpíunnar Mel B, en hann átti í frægu ástarsambandi við hana fyrir nokkrum árum. Fjölnir tekur spurningunni létt og segist ekki kippa sér upp við hana. „Æi, það eru svo margir gæjar sem eru afbrýðisamir vegna þess að kallinn er flottari en þeir,“ segir Fjölnir. „Það er bara þeirra feill að vera ekki duglegri í ræktinni.“ - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.