Innlent

Ekki líklegt að skólum á Íslandi verði lokað vegna svínaflensu

Sóttvarnarlæknir telur ólíklegt að skólum og stofnunum verði lokað í haust vegna svínaflensunnar, en segir embættið hins vegar búið undir þannig aðstæður. Engin fyrirmæli eru um samkomubann um verslunarmannahelgina, en þeim er ráðlagt að halda sig heima sem eru með inflúensulík einkenni.

Alls hafa tuttugu og þrír verið greindir með svínaflensu hér á landi samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu. Búist er við nýjum tölum um fjölda smitaðra á morgun.

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, segir að miðað við höfðatölu sé há tíðni af smitum á Íslandi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir.

Haraldur segir að ef fólk smitast í sumar sé nánast víst að það muni ekki smitast í haust, líkaminn myndi ónæmi fyrir flensunni.

Haraldur segir að margar aðrar pestir geti valdið flensulíkum einkennum og því sé ekki endilega um að ræða svínaflensu þó einkennin séu flest til staðar. H1N1 veiran, eða svínaflensan, sé hins vegar ráðandi núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×