Innlent

Gæslan þarf að skera niður eins og aðrar stofnanir

Georg Lárusson
Georg Lárusson

Þremur þyrluflugmönnum hefur verið sagt upp hjá Landhelgisgæslunni. Félag atvinnuflugmanna gagnrýnir uppsagnirnar og segir þær skerða þjónustu m.a. við sjófarendur. Félagið segir forsendu þess að hægt sé að fara í björgunarflug út á opið haf sé að hafa tvær vaktir sem nú verði erfitt að manna. Georg Lárusson forstjóri segir hinsvegar að uppsagnirnar taki ekki gildi fyrr en í haust, en telur að þrátt fyrir þær verði hægt að manna tvær vaktir. Hann segir á bilinu 20-30 manns missa vinnuna hjá gæslunni sem þurfi að skera niður eins og aðrar stofnanir.

„Við eigum í fjárhagserfiðleikum eins og aðrir og verðum að bregðast við því með hagræðingu í rekstri. Það sem við höfum hinsvegar haft að leiðarljósi er að þetta komi sem allra minnst niður á viðbragðsgetu gæslunnar hvað varðar leit og björgun og við teljum okkur hafa getað mætt því eins og kostur er," segir Georg og bendir á að dregið sé einna minnst úr fluginu í starfsemi stofnunarinnar.

Hann segir augljóst að fækkun 20-30 starfsmanna komi niður á þjónustu Landhelgisgæslunnar en hvað flugið varðar taki þær uppsagnir ekki gildi fyrr en næsta haust. „Við reiknum því með að halda óskertri getu yfir þá mánuði sem mest á okkur mæðir."

Georg segir fjárhagsvandræðin fyrst og fremst stafa af gengisþróun íslensku krónunnar og vonar að breytingar á hagsældinni geti orðið til þess að uppsagnirnar taki ekki gildi. „Við vitum að það þarf að skera niður og við verðum bara að mæta því."

Georg bendir einnig á að það sé ekki sitt að ákveða hversu mikið fé sé sett í stofnunina heldur sé það stjórnmálamannanna. „Við reynum síðan að gera sem mest fyrir það fé sem við höfum til umráða og reynum að gera það á sem skynsamastan máta. Auðvitað vil ég fá meira fé og ég er viss um að forstjóri Landspítalans eð lögreglustjórinn segi það sama. Ég er hinsvegar sammála því að það eigi að leggja áherslu á öryggis- og björgunarmál en það eru pólitíkusarnir sem ákveða það."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×