Erlent

Kínverjar sýna kjarnavopnin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eldflaug til sýnis á herminjasafninu í Peking.
Eldflaug til sýnis á herminjasafninu í Peking.

Kínverjar munu sýna kjarnavopn sín opinberlega á 60 ára afmæli Kommúnistaflokksins í haust.

Flokksafmælið verður 1. október og verður þá mikið um dýrðir í Peking. Heljarmikil hersýning er meðal annars á dagskránni og verða kjarnorkuflaugar úr vopnabúri alþýðuhersins til sýnis. Flaugarnar eru hannaðar og framleiddar af Kínverjum og verður langdræg eldflaug, sem hægt er að skjóta milli heimsálfa, einn gripanna á sýningunni.

Flaugarnar eru af annarri kynslóð kínverskra kjarnavopna en heimildamaður innan hersins segir ekki langt í að þriðja kynslóðin líti dagsins ljós en þá muni Kínverjar standa jafnfætis Bandaríkjamönnum og Rússum hvað tæknihliðina snerti. Vopnasýningunni fylgir 200.000 manna skrúðganga auk þess sem helstu fyrirmenn Kommúnistaflokksins munu heilsa upp á sauðsvartan pupulinn.

Það er kannski eins gott að Kínverjar dusti rykið af vopnabúri sínu á afmælinu þar sem líklegt þykir að þeim verði boðið að taka þátt í miklum heræfingum á Kyrrahafinu með Áströlum og Bandaríkjamönnum síðar á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×