Lífið

Þrjár íslenskar plötur á áratugalista Rolling Stone

Fréttablaðið/Vilhelm
Fréttablaðið/Vilhelm

Íslenska tónlistarútrásin er svo sannarlega ekki gjaldþrota ef marka má áratugalista bandaríska stórblaðsins Rolling Stone. Fánaberar Íslands koma þó ekki á óvart.

Ameríska stórblaðið Rolling Stone hefur birt lista sinn yfir hundrað bestu plötur áratugarins. Listinn er valinn af meira en hundrað tónlistamönnum, blaðamönnum og fólki úr bransanum. Þrjár íslenskar plötur eru á þessum lista, sem verður að teljast glæsilegur árangur hjá örþjóð. Sigur Rós á tvær plötur á listanum, Ágætis byrjun er númer 29 og (svigaplatan) er númer 76. Platan Vespertine með Björk er svo númer 67.

Svo við montum okkur aðeins þá er eina norræna platan önnur á listanum með hinum sænsku The Hives (Veni Vidi Vicious, númer 91). Milljónaþjóðin Frakkland er jafn dugleg og við í poppinu og á þrjá listamenn sem eru með plötur á listanum (Daft Punk - Discovery númer 33, Phoenix - Wolfgang Amadeus Phoenix númer 60 og Manu Chao - Próxima Estación Esperanza númer 65). Að öðru leyti er nánast allt annað efni á listanum frá Bretlandseyjum og Norður-Ameríku.

Ótvíræðir sigurvegarar eru Thom Yorke og félagar í Radiohead, sem eiga fjórar plötur á listanum, þar af þá bestu, Kid A. U2 og Coldplay eiga þrjár plötur á band, en auk Sigur Rósar með tvær plötur á lista Rolling Stone eru Bob Dylan, The White Stripes, Eminem, Arcade Fire og Wilco.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.