Innlent

Samfylkingin stillir okkur ekkert upp við vegg

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir óeðlilegt að Samfylkingin reyni að hafa áhrif á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann segir flokkinn ekki ætla að láta stilla sér upp við vegg með hótunum um stjórnarslit verði stefnu flokksins ekki breytt í evrópumálum. Sigurður segir andstöðu við Evrópusambandið hafa aukist innan flokksins.

„Þeir sem vilja hafa áhrif á stefnu flokksins ganga í flokkinn og berjast fyrir skoðunum sínum á landsfundi. Það kemur ekki til greina hjá okkur að stilla Samfylkingunni upp við vegg og segja þeim að breyta afstöðu sinni í ákveðnum málaflokkum annars slítum við ríkisstjórnarsamstarfinu," sagði Sigurður Kári á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Sigurður var gestur þáttarins ásamt Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri grænna.

Sigurður benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið til samninga við Samfylkinguna og myndað ríkisstjórn á grundvelli stjórnarsamnings sem væri í gildi og eftir honum væri starfað. „Við munum ekki láta stilla okkur upp við vegg með hótunum um að breyta stefnu okkar í evrópumálum."

Aðspurður um stemmninguna í Sjálfstæðisflokknum varðandi Evrópusambandið nú þegar landsfundur nálgast sagði Sigurður að æ fleiri félagar hans úr þingflokknum hefðu komið fram að undanförnu sem annaðhvort vilji ganga inn eða fara í viðræður.

„Það er lítill munur á þessu tvennu. Ég held hinsvegar að innan Sjálfstæðisflokksins og þess hóps sem mun sækja landsfund hafi andstaðan aukist ef eitthvað er."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×