Innlent

63 menn munu djöflast gegn persónukjöri

Hópur 63 sérhagsmunagæslumanna mun reyna allan djöfulskap til að koma í veg fyrir að hægt verði að bjóða upp á persónukjör í komandi þingkosningum. Þetta fullyrtu þeir Eiríkur Bergmann Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson um síðustu helgi. Þetta virðist nú vera að koma á daginn.

Þrátt fyrir áform nýrrar ríkisstjórnar um að gefa kjósendum frelsi til að raða sjálfir frambjóðendum á lista virðist mikil tregða meðal þingmanna að þetta nái fram. Á frægum fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur um síðustu helgi sagði Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur mikilvægt að þrýst yrði á þessa breytingu. Það væri algjört lykilatriði að framboð gætu lagt fram ónúmeraða lista til að koma stjórnmálalífinu úr dauðum höndum flokksstofnana.

„Það er bara einn hópur manna sem mun standa gegn þessu, einn hópur manna sem mun með einhverjum anskotans djöfulsskap fram að kosningum koma því þannig fyrir að það verði allt í einu ekki hægt að gera þetta núna heldur ætli þeir að ræða þetta einhverntímann seinna. Þetta er takmarkaður, lítill hópur sérhagsmunagæslumanna. Þeir eru 63 talsins," sagði Eiríkur Bergmann.

Jón Baldvin Hannibalsson tók undir þetta og sagðist þekkja af eigin reynslu frá Finnlandi að þar hefði gefist mjög vel að bjóða upp á ónúmeraða lista. Þar væri ekki viðlíka sama auglýsingamennska eins og í pólitíkinni hér. Æskilegt væri að flokksklíkurnar réðu ekki, endurnýjunin væri lykilatriðið og að 63 menn inni á þingi myndu áreiðanlega gera allt til að það verði sem minnst endurnýjun.

Og þetta virðist nú vera að koma á daginn. Á fundi flokksformanna í gærkvöldi náðist ekki samstaða um málið. Geir H. Haarde hefur upplýst að Sjálfstæðisflokkurinn að leggist gegn þessu og óvíst er hvort hinir flokkarnir munu knýja fram breytinguna.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×