Innlent

Soffía sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins

Soffía Lárusdóttir.
Soffía Lárusdóttir.
Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar í vor.

,,Soffía segir að mikil vinna sé framundan við endurreisn íslensks samfélags. Mikilvægt sé að til þess veljist nýtt fólk með mismunandi þekkingu og reynslu. Soffía hefur víðtæka reynslu af stjórnun og uppbyggingu í héraði og á landsvísu. Sú reynsla hefur margvíslega skírskotun við endurreisn landsins,“ segir í tilkynningu.

Soffía er 48 ára gömul, fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri en hefur verði búsett á Egilsstöðum í 24 ár.  Hún er með B.A. próf í þroskaþjálfafræðum og hefur lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Soffia tók sæti í bæjarstjórn Austur - Héraðs árið 1998 og var formaður bæjarráðs til 2002 og síðan forseti bæjarstjórnar til sameiningar þeirra þriggja sveitarfélaga sem í dag mynda Fljótsdalshérað. Hún er varaformaður launanefndar sveitarfélaga. Soffía er formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins og situr í miðstjórn hans. Hún á sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélags Fljótsdalshéraðs og er fulltrúi í stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna. Soffía var formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2003 – 2006.

Maki Soffíu er Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri og bæjarfulltrúi. Eiga þau fimm börn og sjö barnabörn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×