Innlent

Hefur ekki tekið ákvörðun um formannsframboð

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kristján Þór Júlíusson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur ekki tekið ákvörðun um formannsframboð eða til annarra forystustarfa í flokknum. Nýr formaður verður kjörinn á landsfundi flokksins sem fer fram dagana 26. til 29. mars. Kristján Þór er meðal þeirra sem nefndir hafa verið sem hugsanlegir eftirmenn Geirs H. Haarde sem formaður flokksins. Enn sem komið er hefur Bjarni Benediktsson einn tilkynnt um framboð sitt.

,,Ég tel að menn verði að fara í gegnum prófkjör eða uppstillingar áður en þeir fara að gefa út digrar yfirlýsingar um hvað þeir ætla að gera á landsfundi," segir Kristján Þór. Hann segist vera að meta stöðuna og ræða við flokksmenn.

Prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fer fram 14. mars. Aðspurður segir Kristján Þór ekki of skamman tíma til stefnu að loknu prófkjöri til að taka ákvörðun um framboð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa flestir komið úr Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu. ,,Mér finnst skipta minnstu máli hvaðan þeir eru heldur fyrir hvað þeir standa og hvaða reynslu þeir hafa," segir Kristján Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×