Skoðun

Myndum kosningabandalag

Davíð Stefánsson skrifar
Þótt Guðmundur Andri Thorsson gangi ansi langt í að verja gjörðir Ingibjargar Sólrúnar í pistli sínum í Fréttablaðinu mánudaginn 2. mars sl. snertir hann á mjög mikilvægri umræðu – æskilegu kosningabandalagi Samfylkingar og VG. Engum dylst að efnahagshrunið kom að okkur frá hægri hliðinni og að rætur þess er ekki hægt að rekja til vinstri stefnu í nokkrum einasta skilningi. Einmitt þess vegna er mjög áríðandi að vinstri flokkarnir – VG og Samfylking – myndi stjórn eftir kosningar. Þetta er sögulegt tækifæri sem verður að grípa.

Einstaklingar úr öllum flokkum virðast sammála því að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi nauðsynlega á fríi að halda og kominn sé tími á nýjar áherslur í stjórn landsins. Margir gamlir kunningjar mínir, íhaldssamir og helbláir til margra ára, taka líka undir þetta sjónarmið. Þeir líta svo á að sitt lið þurfi að fara í æfingabúðir, læra nýjar leikaðferðir og finna aftur kjarnann sinn. Þann tón má líka greina í drögum að skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Slíkri endurskoðun ber auðvitað að fagna. Stjórnmálaflokkur byggir á samspili margra ólíkra þátta. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkinn rekið af eigin leið síðustu árin og í ofanálag hafa flokksmenn hans blindast af leiðtogadýrkun og ofurtrú á kapítalíska hugmyndafræði. Núna súpum við öll biturt seyðið af því.

En nóg um hægrimennsku og afleiðingar hennar: Við þurfum af öllu hjarta að snúa samfélaginu aftur í átt að vinstrinu að jöfnuði og félagshyggju. Fyrir slíkum gildum munu aðeins tveir flokkar berjast: VG og Samfylkingin. Megi þeir sameinast í sterku og afgerandi kosningabandalagi til að íslensku samfélagi gefist færi á að sleikja sín djúpu sár og ná skjótum bata. Núna óska kjósendur eftir skýrum línum í stjórnmálum. Stígum heillaskrefið og gerum opinbert kosningabandalag.

Höfundur er bókmenntafræðingur og býður sig fram í forvali VG í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×