Skoðun

Að kveikja á síðustu eld­spýtunni

Sigurður Árni Reynisson skrifar

Sagan um stúlkuna með eldspýturnar hefur fylgt mörgum frá bernsku. Í sögunni stendur stúlkan ein úti í kuldanum, berfætt og hrakin, með fáeinar eldspýtur í lófanum. Með barnslega von í hjarta kveikir hún á einni eftir annarri og sér í hugskotinu heitan eld, matarilm, hlátur og ást. En hver eldspýta slokknar jafnóðum. Enginn sér hana og enginn kemur. Að lokum er hún horfin. Hún dó ekki eingöngu vegna kulda, heldur vegna þess að enginn sá hana í tæka tíð.

Það er einmitt þessi blinda, þetta skeytingarleysi sem sagan dregur upp af slíkri nákvæmni sem á enn erindi við okkur í dag. Við lifum í samfélagi sem telur sig velmeinandi og siðmenntað. Við byggjum upp velferðarkerfi, tölum um réttindi barna, aukinn stuðning og félagsleg úrræði. En á sama tíma líða börn og ungmenni fyrir það að vera ósýnileg. Þetta eru börnin sem eru til staðar fyrir aðra, mæta í skólann, taka þátt í tómstundum og lifa innan um okkur. En innra með þeim ríkir kuldi sem við sjáum ekki nema við gefum okkur tíma til að horfa.

Þessi kuldi er ekki mælanlegur með hitamæli. Hann birtist sem tilfinningaleg fjarlægð, einmanaleika, þögn sem enginn rýnir í, merki sem eru send en ekki móttekin. Börn sem eru stöðugt þreytt, sem segja lítið, sem brosa á röngum augnablikum eða forðast augnsamband. Þau sýna ekki endilega slæma hegðun, þau eru kannski bara að gefa frá sér veikburða vonarneista. Lítil eldspýta, kveikt í myrkrinu.

Við sem störfum með börnum hvort sem við erum kennarar, frístundaráðgjafar, starfsfólk leikskóla, foreldrar eða aðrir fullorðnir í lífi barna fáum tækifæri, ekki endilega til að leysa vandann heldur til að sjá hann. Og það eitt og sér getur skipt sköpum. Það getur verið freistandi að trúa því að ábyrgðin hvíli hjá fagfólki, þ.e. sálfræðingum, námsráðgjöfum og barnaverndarnefndum. En áður en þau kerfi fá tækifæri til að bregðast við, er oft löngu búið að kveikja á mörgum eldspýtum og alltof oft síðustu eldspýtunni. Það þarf ekki háfleyg orð eða yfirgripsmiklar aðgerðir til að sýna að við sjáum þau. Það getur falist í því að spyrja aftur þegar barn svarar „allt í lagi“, að þegja með þegar þögnin segir meira en orðin, að brosa ekki aðeins til hópsins heldur líka einstaklingsins sem heldur sig til hlés. Það er stundum í litlu augnablikunum sem börn finna að þau skipta máli.

Sú hætta sem blasir við í dag er ekki aðeins geðrænn vandi ungmenna heldur félagslegur doði okkar sem samfélags. Að hlusta ekki eftir undirliggjandi tón, að vanmeta táknin, að afgreiða áhyggjur sem duttlunga eða skort á sjálfsaga. Og í því samhengi erum við ekki ósvipuð fólkinu í ævintýrinu, fólkinu sem gekk framhjá stúlkunni í snjónum, of upptekið eða ónæmt til að staldra við. Við getum ekki bjargað öllum, en við getum breytt einhverju fyrir þá sem standa næst okkur. Það krefst ekki menntunar í geðheilbrigðisfræðum heldur vilja til að tengjast. Vilja til að veita eftirtekt, að líta ekki framhjá því sem virðist smátt. Þegar barn finnur að það er séð og tekið alvarlega, getur sú reynsla kveikt eitthvað innra með því sem heldur lífinu gangandi, jafnvel í erfiðum aðstæðum.

Sagan um stúlkuna með eldspýturnar er harmleikur, en hún er líka varnaðarorð. Hún minnir okkur á að það sem virðist fjarlægt og óraunverulegt og getur átt sér hliðstæðu í okkar eigin hverfi, í okkar eigin stofu og í okkar eigin fjölskyldu. Og sú minning þarf að fylgja okkur, ekki sem sorgarsaga heldur sem hvatning til að sjá betur, hlusta betur og bregðast fyrr við aðstæðum. Við megum ekki bíða eftir síðustu eldspýtunni. Við þurfum að bregðast við þegar við sjáum fyrstu vonarneistana áður en þeir slokkna.

Höfundur er mannvinur og kennari.




Skoðun

Skoðun

Konukot

Sigmar Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×