Innlent

Innistæður áfram tryggðar að fullu

Ótti hefur gripið um sig meðal margra sparifjáreigenda eftir að frumvarp um þak á innstæðutryggingum var lagt fram á Alþingi. Sumir hafa tekið út peninga af bankareikningum og aðrir veðja á skuldabréf. Ríkisstjórnin hefur ítrekað yfirlýsingar um að innistæður séu tryggðar að fullu.

Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra kveður á um að innstæður verði einungis tryggðar upp að vissu marki eða 50 þúsundum evrum sem jafngildir rúmum 9 milljónum króna.

Þó Íslendingar séu orðnir ýmsu vanir í kreppunni olli frumvarpið nokkrum ótta meðal sparifjáreigenda. Margir brugðu á það ráð að taka út peninga af bankareikningum og sumir fjárfestu í skuldabréfum, og jókst velta á skuldabréfamarkaði verulega í kjölfarið

Til að draga úr ótta almennings greip ríkisstjórnin til þess ráðs í gær að ítreka fyrri yfirlýsingar um að allar innistæður séu tryggðar að fullu.

Viðskiptaráðherra segir að margir hafi misskilið frumvarpið.

„Það virtust margir draga þá ályktun að þar með myndi þessi yfirlýsing um ábyrgð á öllum innistæðum að fullu falla úr gildi en það er alls ekki þannig. Það er ekkert samhengi þar á milli," segir Gylfi.

Innistæður eru því enn að fullu tryggðar og ekki stendur til að breyta því á næstunni.

„Svona í ljósi þess sem gekk á og hversu margir hafa brennt sig illa þá er hreint ekki skrítið að það sé ekki komið fullt traust á bankakerfinu. Það væri mjög skrítið ef menn væru búnir að gleyma því sem gerðist í fyrra nú þegar," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×