Lífið

Brjáluð þungarokksbomba

Endurvakin Harðkjarnahljómsveitin Klink hefur verið endurvakin og heldur tónleika á Dillon í kvöld.
Endurvakin Harðkjarnahljómsveitin Klink hefur verið endurvakin og heldur tónleika á Dillon í kvöld.

„Við vorum beðnir um að taka eina tónleika á Eistnaflugi í sumar, sem við gerðum. Eftir það ákváðum við að klára nokkur lög sem við höfðum samið en aldrei fullklárað og þess vegna var hljómsveitin endurvakin,“ segir Agnar Eldberg gítarleikari um endurkomu harðkjarnahljómsveitarinnar Klink sem mun spila á Dillon í kvöld ásamt hljómsveitunum Retrön og Celestine.

Haukur Valdimar Pálsson mun fylla skarð bassaleikarans Árna Hauks Jóngeirssonar sem búsettur er í Danmörku. Bassafanturinn Þröstur Jónsson verður einnig fjarri góðu gamni því sá stundar sjómennsku af miklum móð þessa stundina.

„Við erum svaka spenntir fyrir tónleikunum í kvöld, þetta verður brjáluð þungarokksbomba. Við ætlum að þrusa í gegnum sjö lög, það er ekki hægt að spila þungarokk í einn og hálfan tíma, ég held að það sé bara ekki á færi dauðlegra manna,“ segir Agnar, sem lofar gallsúrri stemningu.

Hljómsveitin hefur ekki gefið út plötu síðan 666 gráður norður kom út og segir Agnar að verið sé að vinna að nýju efni. „Við erum að rifja upp gömul áður óútgefin lög og erum að semja nokkur til viðbótar. Þegar það er búið ætlum við að reyna að koma okkur í stúdíó einhvers staðar. Ef einhver hefur áhuga á að aðstoða okkur í þeim málum má sá hinn sami gefa sig fram.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 21.30 og er aðgangseyrir 499 krónur.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.