Skoðun

Þjóðin segi já eða nei

Farsæl leið úr Icesave-klemmunni er þjóðar­atkvæðagreiðsla. Ótækt er að ætla almenningi að axla fordæmalausar fjárskuldbindingar án þess hann fái nokkuð að segja um skilmálana. Illbrúanleg gjá virðist líka hafa myndast milli þeirra sem vilja ganga að skilmálum fyrirliggjandi samninga og hinna sem þykja þeir óaðgengilegir. Er þá ótalin sögufræg gjá milli þings og þjóðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla er leið til að gera út um mál þegar ekki er hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu með öðrum hætti. Að slíkri sáttaleið er unnið á vefsíðunni www.kjosa.is.

Ekki er víst að ríkisstjórnin lifi af að frumvarpið verði fellt. Þyngra virðist þó hvíla á ríkisstjórninni óvissan um hvað taki við felli Alþingi frumvarpið. Stjórninni er vorkunn. Hitt er víst að engin ríkisstjórnin mun komast heil frá því að sniðganga almenning í málinu, að almenningi verði skipað að axla byrðarnar og þegja. Hér yrði ólíft fyrir klögumálum og svikabrigslum og samfélagið ekki til stórræðanna.

Gera verður ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi. Þá kemur til kasta forseta Íslands. Forsetinn getur vísað málinu til þjóðarinnar. Annað af tvennu getur þá gerst. Frumvarpið yrði samþykkt. Innbyrðis yrði þjóðin þá - hugsanlega eftir nokkurn slag - „sátt að kalla". Þjóðin gæti hafnað frumvarpinu. Lögin féllu þá úr gildi og fyrirliggjandi samningar.

Ríkisstjórnin hefði uppfyllt skilmála samninganna en almenningur neytt stjórnarskrárbundins réttar og hafnað skilmálunum. Upp væri komin samningsstaða.

Ævafornar mótbárur heyrast jafnan þegar almenningur býst til að taka örlög sín í eigin hendur. Málið er ekki þess eðlis; almenningur lætur blekkjast af lýðskrumi, hefur ekki forsendur til að setja sig inn í málið. Víst má efast um dómgreind almennings þegar horft er til stjórnmálamanna sem hér hafa valist til forystu. Þeirra sem stýrt hafa landinu fram af hengiflugi. Ég skora á samborgara mína að leggja leiðsögn þeirra til hliðar og taka málið í sínar hendur á www.kjosa.is.

Höfundur er talsmaður framtaksins „Í okkar hendur" á kjosa.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×