Innlent

Garðyrkjubændur funda vegna tíðra innbrota

Hitalampar eru nauðsynlegir við ræktun á kannabisplöntum.
Hitalampar eru nauðsynlegir við ræktun á kannabisplöntum.

Lögreglan í Árnessýslu leitar enn innbrotsþjófs, sem ógnaði öryggisverði með exi, þegar hann kom að þjófinum á innbrotsstað í gróðurhúsi í Hveragerði í fyrrinótt. Garðyrkjubændur eru orðnir langþreyttir á lampastuldum og hafa blásið til fundar um málið á morgun.

Öryggisvörðurinn, sem kom að þjófnum, komst undan á hlaupum og lögreglumenn frá Selfossi og sérsveitarmenn frá Ríkislögreglustjóra leituðu ítarlega í bænum, en án árangurs. Lögreglan lítur málið alvarlegum augum, enda var öryggisverðinum illa brugðið. Talið er víst að þjófurinn hafi ætlað að stela gróðurhúsalömpum og skildi hann eftir tæki og tól til þess verknaðar.

Hugsanlegt er að annar hafi verið í vitorði. Þetta er fjórða innbrotið í gróðurhús í Árnessýslu á skömmum tíma og frá áramótum er búið að stela hátt í 200 lömpum á svæðinu. Hver lampi kostar 40 til 50 þúsund krónur, þannig að tjónið er umtalsvert, fyrir utan skemmdir á raflögnum, sem þjófarnir valda við iðju sína. Garðyrkjubændur ætla nú að koma saman og ráða ráðum sínum um hugsanleg viðbrögð við þessu, í samvinnu við sveitarfélög, lögreglu og öryggisfyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×