Erlent

Nauðsynlegt að fjölga hermönnum í Afganistan

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikilvægt er að fjölga hermönnum í Afganistan til að koma í veg fyrir að stríðið tapist. Þetta segir einn af yfirmönnum bandaríska hersins í Afganistan.

Í bandaríska dagblaðinu Washington Post er sagt frá trúnaðarskýrslu um ástand mála í Afganistan. Þar er vitnað í bandarískan hershöfðingja í Afganistan Stanley McChrystal. Hann segir mikilvægt að fjölga hermönnum í Afganistan á næsta árinu til að tryggja árangur. Þær áætlanir sem herinn hafi unnið eftir séu ekki að skila árangri og því þurfi að endurskoða þær.

McChrystal gagnrýnir einnig hersveitir Atlantshafsbandalagsins fyrir að einbeita sér of mikið af því að ráða niðurlögum uppreisnarsveita í stað þess að vernda almenna borgara í Afganistan.

Frá því í maí á þessu ári hefur fjölgað í herliði Bandaríkjamanna í Afganistan um 30 þúsund. Það þýðir nærri tvöföldun á liðsafla. Gert er ráð fyrir að 68 þúsund bandarískir hermenn verði við störf í Afganistan í lok árs.

Töluvert mannfall hefur verið í röðum erlendra hermenna í Afganistan á þessu ári. Í morgun voru sex hermenn bornir til grafar á Ítalíu. Þeir létust í sjálfsmorðssprengjuárás í Kabul í síðustu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×