Erlent

Tölvurnar sjá um verðbréfaviðskiptin

Tölvutækninni fleygir fram og tekur við.
nordicphotos/AFP
Tölvutækninni fleygir fram og tekur við. nordicphotos/AFP
Verðbréfamiðlarar hafa undanfarin ár í æ meiri mæli notast við tölvutæknina til að auðvelda sér störf sín. Nú er hins vegar svo komið að tölvurnar eru farnar að geta séð að stórum hluta um störf verðbréfamiðlara.

Í Bandaríkjunum sjá tölvur nú þegar um helming allra verðbréfaviðskipta, að því er danska dagblaðið Politiken skýrir frá. Í Danmörku er þetta hlutfall komið upp í fimmtán prósent, og fer vaxandi.

„Stærstu aðilarnir á markaðnum eru ekki lengur bankamenn, heldur reiknimiðlarar, sem nota tölvur til að sjá um viðskiptin fyrir sig,“ hefur Politiken eftir Bjørn Sibbern, framkvæmdastjóra í Nasdaq OMX-kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Hann telur að á næstu árum muni mannshöndin hvergi koma nærri helmingi allra verðbréfaviðskipta í Danmörku, enda séu tölvurnar oft sneggri til enn mannshugurinn að greina hagstæð kauptækifæri.

Sibbern segir þó óþarft fyrir verðbréfamiðlara af holdi og blóði að óttast um sinn hag. Þvert á móti geti þessi þróun komið þeim vel því tölvutæknin fjölgi viðskiptum á markaðnum og um leið opnist ný tækifæri fyrir mannlega þáttinn.

Hann segist heldur ekki hafa áhyggjur af því að vélrænu viðskiptin fari úr böndunum og komi af stað nýjum og æ ískyggilegri kreppum. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×