Innlent

Þurfum ekki Nýja Ísland hf.

Séra Karl Sigurbjörnsson Biskup hvetur fólk til að horfa ekki um öxl í reiði, heldur horfa í kringum sig hér og nú, í árvekni og umhyggju.
Séra Karl Sigurbjörnsson Biskup hvetur fólk til að horfa ekki um öxl í reiði, heldur horfa í kringum sig hér og nú, í árvekni og umhyggju. Fréttablaðið/GVA

„Við þurfum samstöðu, þjóðarsátt um endurreisn. Ekki Nýja Ísland hf.!“ sagði biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson í nýárspredikun sinni í gær. Hann hvatti þjóðina til að koma auga á tækifæri nýrra tíma, þótt margir líti „rústir einar, vonleysi og sorta fram undan“.

„Nú gjöldum við dýru verði græðgi og hroka undangenginna ára, og berum þyngri skuldaklafa en nokkur önnur þjóð,“ sagði hann. „Við vorum í hópi ríkustu þjóða heims og lifðum hátt. Öllu virtist vikið til hliðar nema nauðsynjum fjármagnsins.“

Mikilvægt væri að finna víðari framtíðarsýn en að lágmarka skaðann af efnahagsfárinu: „Eða verða engin sjónarmið tekin gild nema hagsmunir fjármagnsins?“

Biskup minnti á kærleiksboðskap kristninnar, um að elska náungann: „Ef við höldum ekki í þá hugarsýn, viðmið og verðmæti hjartans, þá týnum við áttum og verðum stefnulaus reköld eigin hagsmuna,“ sagði hann. Í kirkjum væri beðið fyrir forseta, ríkisstjórn, Alþingi og öllum landsins börnum. Í fyrirbæn felist ásetningur um að „styðja þau sem kölluð eru til forystu í málum okkar með kærleika og gagnrýnni, heilli og hreinskiptinni samstöðu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×