Innlent

Helmingi fleiri þiggja aðstoð frá Reykjavíkurborg

Úr miðbæ Reykjavíkur.
Úr miðbæ Reykjavíkur. Mynd/GVA

Fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg hefur aukist um rúmlega 50 prósent fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Rúmlega 1.800 manns njóta nú aðstoðar borgarinnar.

„Við höfum tekið saman aukninguna og borið saman tímabilið frá janúar til júní í ár og í fyrra," segir Ellý Alda Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri hjá skrifstofu velferðarþjónustu hjá Reykjavíkurborg. „Notendum hefur fjölgað um 50 prósent en það er enn meiri aukning í upphæðum, um 80 prósent. Það er bæði vegna þess að upphæðin hækkaði um áramótin og svo fá fleiri hærra hlutfall í sinn hlut." Sveitarfélögum ber að veita einstaklingum og fjölskyldum, sem ekki geta séð sér farborða án aðstoðar, fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að 115.567 krónur á mánuði og til hjóna eða fólks í sambúð 184.907 krónur á mánuði. „Ef þú ert með einhverjar tekjur færðu svo það sem upp á vantar."

Ellý segir að aukning hafi orðið jafnt og þétt á beiðnum eftir aðstoð frá því að atvinnuleysi fór að aukast. Hún segir aukninguna langmesta í aðstoð til framfærslu, en á heildina litið sé aukningin minni. Fjölgunin er mest hjá atvinnulausum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×