Innlent

Fjármögnun lögreglu rædd í allsherjarnefnd

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar og þingmaður Samfylkingar, í ræðustól Alþingis.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar og þingmaður Samfylkingar, í ræðustól Alþingis. Mynd/GVA
Málefni lögreglunnar verða til umræðu á fundi allsherjarnefndar alþingis á morgun.

„Þetta er bara í kjölfar umræðunnar um löggæslumálin og þess sem dómsmálaráðherra hefur boðað um uppstokkun lögreglumála," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar.

Hún segir upphaf málsins eiga rætur sínar að rekja til bréfasyrpu sem Vísir birti frá nafnlausum lögregluþjóni undir yfirskriftinni Neyðarkall frá lögreglumanni. Þá hafi allsherjarnefnd tekið málið fyrir og ákveðið að funda frekar.

Alls hafa yfir fimm þúsund manns skráð sig í hópinn Svörum neyðarkalli frá lögreglumanni á tengslavefnum Facebook, en meðlimir hans lýsa þungum áhyggjum af bágborinni stöðu lögreglunnar og krefjast úrbóta.

Steinunn segist gera ráð fyrir að fjármögnun lögregluliðsins verði tekin til umræðu á fundinum.

Spurð hvort fundurinn sé upphafið að frekari úrbótum segir Steinunn fundinn fyrst og fremst ætlaðan til upplýsinga.

„Sjáum bara til eftir fundinn á morgun," segir Steinunn.

Gestir allsherjarnefndar á fundinum verða Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Snorri Magnússon, formaður landssambands lögreglumanna og fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×