Erlent

Fimmtungur fallinna á Gaza eru börn

Talið er að um fimmtungur fórnarlamba árásanna á Gaza séu börn.
Talið er að um fimmtungur fórnarlamba árásanna á Gaza séu börn. MYND/AP

Talið er að rúmlega fimmtungur þeirra ríflega fimm hundruð Palestínumanna sem hafa fallið í árásum Ísarelsmanna á Gaza séu börn. Aðalsjúkrahúisð í Gaza-borg hefur ekki lengur undan að taka við særðum og margir deyja áður en þeir komast undir læknis hendur.

Norski læknirinn Erik Fosse starfars sem sjálfboðaliði á Shifa sjúkrahúsinu í Gaza-borg segir í viðtali við fréttavef CNN að af þeim rúmlega fimm hundruð Palestínumönnum sem hafi fallið séu yfir fimmtungur börn sem þýði að þau séu fleiri en hundrað sem hafi týnt lífi. Fosse segir föllnum fjölga ört eftir því sem bardagar ísraelskra hermanna og herskárra Palestínumanna færist meira inn í borgina.

Nærri þrjú þúsund Palestínumenn hafa særst. Shifa er stærsta sjúkrahúsið í Gaza-borg og segir Fosse það ekki lengur hafa undan að taka við særðum Palestínumönnum. Margir þeirra deyji áður en læknir geti hlúð að þeim. Aðgerðir séu gerðar á göngum sjúkarhússins með misgóðum árangri.

Innrás Ísraela á Gaza hófst seint á laugardaginn eftir loftárásir sem stóðu í um viku.

Ísraelar ætla sér að komast milli bols og höfuðs á Hamas-samtökunum sem stjórna Gaza. Einnig vilja þeir stöðva flugskeytaárásir herskárra Palestínumanna á Suður-Ísrael frá Gaza sem kostað hafa fjóra Ísraela lífið frá því loftárásir á Gaza hófust.

Ayman Daragmeh, talsmaður Hamas í Ramalla, segir ekki hægt að kalla aðgerðir Ísraela stríð. Miklu nær sé að lýsa þessu sem helför. Daragmeh segir að þeir sem hafi hertekið landsvæði og haldið Gaza í herkví í á annað ár ráðist nú gegn fólkinu sem þeir hafi umkringt og einangrað.

Ísraelar leggja hins vegar áfram áherslu á að almennir Gaza-borgarar séu ekki skotmörk þeirra og sendu hjálpargöng til svæðisins í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×