Innlent

Varaslökkviliðsstjóri sambandslaus í Reykhólahreppi

Ekki náðist í Bjarka Stefán Jónsson símleiðis.
Ekki náðist í Bjarka Stefán Jónsson símleiðis.

Varaslökkviliðsstjórinn Bjarki Stefán Jónsson á Gróustöðum í Gilsfirði í Reykhólahreppi, hefur verið símasambandslaus í vikutíma vegna bilunar hjá Símanum eða Mílu samkvæmt fréttavefnum reykholar.is.

Þar segir að málið hafi verið í athugun en lítið þokast.

Þarna er um heimasímann að ræða en farsíma samband á Gróustöðum er afar slæmt og gloppótt samkvæmt reykholar.is.

Stundum er hægt að nota farsímann með því að fara á ákveðinn stað úti á hlaði eða út í tiltekinn glugga en stundum dugar það ekki einu sinni til, samkvæmt vefnum.

Þá kemur fram að slökkvilið Reykhólahrepps er fámennt og sérlega óheppilegt að ekki skuli vera nokkur leið að hringja í varaslökkviliðsstjórann að mati íbúa.

Hluta af þessum tíma hefur slökkviliðsstjórinn verið víðsfjarri í sumarfríi.

Þá eru ótalin þau persónulegu óþægindi að öðru leyti sem fylgja langvarandi símasambandsleysi.

Varla þarf að taka fram að ekki náðist í Bjarka Stefán við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir tilraunir til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×