Innlent

Skylt að sækja nefndafundi samkvæmt lögum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður efnahags- og skattanefndar.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður efnahags- og skattanefndar. Mynd/Pjetur
Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis er þingmönnum skylt að sækja alla nefndafundi nema nauðsyn banni. Forfallist þeir svo nauðsyn krefji er þingflokki þingmannsins heimilt að tilnefna annan þingmann sem varamann um stundarsakir til setu í nefnd.

Þessa heimild nýtti Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í gær og kallaði flokkssystur sína á fund efnahags- og skattanefndar í sinn stað.

Lilja vildi ekki kjósa á móti meirihlutaáliti nefndarinnar þrátt fyrir að vera því ósammála, því það hefði að hennar sögn þýtt úrsögn úr stjórnarliðinu. Þá vildi hún ekki kjósa með því, því hún vildi ganga óbundin til atkvæðagreiðslu um málið í þinginu.

Hún kallaði því inn varamann sinn sem kaus að lokum með málinu.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir algengt að staðgenglar séu á nefndafundum, en áréttar aðspurður að í lögum sé slíkt eingöngu heimilað vegna forfalla.

Hann vildi ekki tjá sig um það hvort pólitísk forföll væru réttmæt, og sagði þingmanninn verða að svara því sjálfur hvort umrætt atvik hefðu verið forföll eður ei.




Tengdar fréttir

Vék sæti frekar en að kjósa gegn meirihlutanum

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kaus að kalla inn varamann á nefndarfund efnahags- og skattanefndar í dag frekar en að kjósa gegn meirihlutaáliti nefndarinnar um Icesave-frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×