Innlent

Lögfræðiálitið: Erfitt að fá ákvörðun breskra stjórnvalda hnekkt

Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Breska lögmannsstofan Lovells LLP hefur veitt ríkisstjórn Íslands ráðgjöf varðandi hugsanlega málsókn á hendur breska ríkinu, í þeim tilgangi að hnekkja kyrrsetningu fjármuna sem tengjast Landsbankanum sem breska ríkið greip til 8. október 2008. Sú kyrrsetning varðar m.a. fjármuni tengda Landsbankanum í eigu eða vörslu íslenskra stjórnvalda.

Lovells LLP skilaði ríkisstjórninni álitsgerð sem Vísir hefur þegar óskað eftir. Skýrslan er hinsvegar undanþegin upplýsingarétti upplýsingalaga.

Lögmannsstofan hefur að ósk stjórnvalda tekið saman yfirlit yfir helstu atriði álitsgerðarinnar.

Í samantektinni segir að hún sé birt opinberlega að ósk íslenskra stjórnvalda en að öðru leyti telst lögfræðiálitið trúnaðarmál. Samantektina má sjá hér að neðan.

1. Verulegir annmarkar eru á þeim rökum og ástæðum sem ríkisstjórn Bretlands hefur upplýst að legið hafi að baki þeirri ákvörðun að kyrrsetja eignir Landsbankans í Bretlandi og aðgerðin var ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem stefnt var að.

2. Hins vegar veitir ensk löggjöf stjórnvöldum mikið svigrúm og væri mjög erfitt að fá ákvörðun breskra yfirvalda hnekkt fyrir breskum dómstól. Gildir þá einu hvort íslenska ríkið, eða aðrir sem hagsmuna eiga að gæta, höfða slíkt mál. Jafnvel þótt svo færi að breskur dómstóll myndi ógilda hina umdeildu ákvörðun yrðu mögulegar skaðabætur að líkindum ekki verulegar.

3. Ákvörðun breskra stjórnvalda vekur upp álitaefni er lúta bæði að Evrópurétti og mannréttindum. Hvort tveggja kallar á ítarlega skoðun á því hvort ríkisstjórn Bretlands hafi með aðgerðum sínum brotið gegn meginreglum um meðalhóf. Úr slíkum álitaefnum mætti fá skorið fyrir breskum dómstólum. Aðild að slíkum málum gætu átt þeir einstaklingar, eða lögaðilar, sem urðu fyrir beinu tjóni af ákvörðun breskra stjórnvalda, til dæmis Landsbankinn.

4. Íslenska ríkið kann hugsanlega einnig að geta höfðað mál gegn breska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Íslenska ríkið getur ekki borið fyrir sig mannréttindi frammi fyrir breskum dómstóli. Því þyrfti íslenska ríkið ekki fyrst að höfða mál fyrir breskum dómstólum áður en mál yrði höfðað fyrir Mannréttindadómstólnum enda sé sýnt fram á að eðlilegt sé að íslenska ríkið komi fram fyrir hönd þeirra hagsmuna sem um ræðir.

5. Íslenska ríkið og Landsbankinn hafa ítrekað beiðni til breska ríkisins um að kyrrsetningu eigna Landsbankans verði aflétt. Hafni bresk stjórnvöld þeim erindum er um nýja stjórnvaldsákvörðun að ræða, sem mögulegt væri að krefjast ógildingar á fyrir breskum dómstólum. Grundvöllur slíkrar málshöfðunar gæti, meðal annars, verið sá að hvort sem hin upprunalega ákvörðun var lögmæt eður ei, þá sé sú ákvörðun að halda kyrrsetningunni til streitu ólögmæt. Í ljósi atvika eftir að hin upprunalega ákvörðun var tekin, er þessi leið hugsanlega vænlegri til árangurs.

6. Bæði ríkisstjórn Íslands og Landsbankinn gætu átt aðild að slíku ógildingarmáli. Yrði málssóknin á höndum Landsbankans myndi líklega reyna á álitaefni um mannréttindi, þá sérstaklega friðhelgi eignaréttarins, sem vakna vegna viðvarandi kyrrsetningar á eignum bankans.

7. Einnig mætti láta reyna á lögmæti aðgerða ríkisstjórnar Bretlands vegna Kaupþings Singer og Friedlander og Heritable. Aðild ættu sem fyrr þeir aðilar sem urðu fyrir beinu tjóni af völdum aðgerðanna. Líklegt er að í slíku máli vöknuðu sambærilegar lögfræðilegar spurningar og í ofangreindum málum, auk þess sem tímafrestir yrðu að meginstefnu þeir sömu.

Ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að hún muni styðja við þá sem hyggjast leita réttar síns vegna aðgerða breskra stjórnvalda, og vinnur náið með Landsbankanum, Kaupþingi og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×