Innlent

Formenn stjórnarflokkanna segja litlar líkur á kosningum

Forsætisráðherra segir ólíklegt að boðað verði til alþingiskosninga á þessu ári. Ágreiningur stjórnarflokkanna um hvort boða eigi til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildaviðræður að Evrópusambandinu kallar ekki á stjórnarslit að mati formanna stjórnarflokkanna.

Sjálfstæðismenn hafa lýst yfir þeirri skoðun að boðað verði til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Þetta hefur valdið nokkrum titringi á stjórnarheimilinu enda telja Samfylkingarmenn nóg að þjóðin greiði atkvæði að samningaviðræðum loknum.

„Ef að þetta sé sú leið sem menn vilja almennt fara og telja að sé sátt um þá hef ég bara sagt að ef við teljum okkur þurfa sækja umboð til þjóðarinnar og kalla hana að kjörborðinu vegna þessa þá eigum við að skoða það að efna jafnhliða til þingkosninga," segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra. Ingibjörg telur þó ekki að þetta sé ástæða til stjórnarslita. Undir það tekur forsætisráðherra.

„Við vinnum við það á daglegum grundvelli að leysa úr ágreiningi. þannig að ég hef ekki trú á öðru en okkur takist það í þessu máli en það fer eftir því hvaða stefnu landsfundur sjálfstæðisflokksins markar," segir Geir.

Framtíð ríkisstjórnarinnar mun að öllum líkindum ráðast á Landsfundi sjálfstæðismanna. Fram hefur komið í máli Ingibjargar að stjórnarsamstarfinu sé sjálfhætt ef sjálfstæðismenn taka afstöðu gegn evrópusambandinu.

Geir segist ekki sjá fyrir sér að Alþingiskosningar verði á þessu ári. Hann segir þó að Sjálfstæðisflokkurinn hræðist ekki kosningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×