Erlent

Leiðtogarnir verða að hætta að misnota aðstöðu sína

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Leiðtogar þróunarríkjanna verða að hætta að misnota aðstöðu sína á kostnað efnahagslífsins og nýta þróunaraðstoð Vesturlandanna með skynsömum hætti. Þetta segir Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sem í dag heimsótti Afríkuríkið Gana.

Barack Obama mætti til Gana í dag ásamt konu sinni Michelle. Forsetahjónunum var vel tekið en Obama bæði hrósaði og ámælti þjóðir í Afríku. Hann sagðist hafa ákveðið að heimsækja Gana, sem hann sagði fyrirmyndarríki, í þeim tilgangi að beina athygli að bestu hliðum þess heimshluta.

Obama er hetja í augum margra Afríkubúa vegna uppruna hans en faðir hans var innflytjandi frá Kenýa. Aðrir eru ósáttir við að málefni heimsálfunnar hafi ekki náð meiri athygli í ríkisstjórn hans.

Í ræðu sem Obama hélt í dag sagði hann tímabært að hverfa frá spillingu og að styrkja þyrfti rætur lýðræðis í álfunni. Hann sagði áframhaldandi þróunaraðstoð við Afríku vera undir góðum stjórnarháttum komið. Má líta svo á að Obama sé þar að vísa til óábyrgrar ráðstöfunar á því þróunarfé sem Vesturlöndin hafa lagt til álfunar undanfarna áratugi. Hann ítrekaði að þau lönd sem þæðu þróunaraðstoð yrðu að beina fjármagninu í réttan farveg svo bæta mætti lífskjör fólks í Afríku. Þá benti hann á mikilvægi þess að álfan yrði sjálfbjarga í stað þess að treysta alfarið á erlenda aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×