Erlent

Færri börn deyja á hverju ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leikkonan Mia Farrow, sem er góðgerðarsendiherra Unicef, aðstoðar hér barn við að blása sápukúlur. Mynd/ AFP.
Leikkonan Mia Farrow, sem er góðgerðarsendiherra Unicef, aðstoðar hér barn við að blása sápukúlur. Mynd/ AFP.
Dánartíðni barna undir fimm ára aldri hélt áfram að lækka á árinu 2008 og hefur hún lækkað samfellt í tuttugu ár, segir í nýrri skýrslu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt niðurstöðunum hefur barnadauði dregist saman um 28% á árabilinu 1990 til 2008. Það þýðir að dauðsföllum hefur fækkað úr 90 á hverjar 1000 fæðingar í 65. Heildarfjöldi barna undir fimm ára aldri sem lést árið 2008 var 8,8 milljónir en 12,5 milljónir árið 1990.

„Sé miðað við árið 1990 deyja nú 10.000 færri börn á hverjum degi," sagði Ann M. Veneman, framkvæmdastjóri UNICEF í tilefni af útgáfu skýrslunnar. „Þó mikill árangur hafi náðst er óásættanlegt að á hverju ári deyi 8,8 milljónir barna fyrir fimm ára afmælið sitt," bætir Veneman við.

Í skýrslunni kemur fram að mikill árangur hefur náðst í að vinna gegn barnadauða í Malaví. Þá kemur jafnframt fram að af öllum dauðsföllum barna undir fimm ára aldri í þróunarlöndunum eru 93% í Afríku og Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×