Innlent

Varnarmálastofnun lögð niður

Varnarmálastofnun tók til starfa  1. júní 2008 undir stjórn Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra.
Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008 undir stjórn Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisríkisráðherra, sem felur í sér að Varnarmálastofnun verður lögð niður og að verkefni stofnunarinnar verði færð til fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis. Þetta mun ekki hafa áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar Íslands. Stofnunin tók til starfa 1. júní 2008 undir stjórn Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra.

„Hvort tveggja byggir á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að Varnamálastofnun verði endurskoðuð í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland, og að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis í innanríkisráðuneyti fyrir lok kjörtímabilsins," segir á vef utanríkisráðuneytisins.

Varnarmálastofnun verður lögð niður þegar á næsta ári eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Breytingum sem leiða af niðurlagningu hennar þarf því að ljúka fyrr og þær þurfa að rúmast innan óbreyttrar verkaskiptingar Stjórnarráðsins. „Það felst m.a. í því að verkefni Varnamálastofnunar verða færð til þeirra borgaralegu stofnana sem næst standa verkefnum hennar í dag en jafnframt yrðu burðarás í fyrirhuguðu innanríkisráðuneyti. Samhliða þessu þarf að móta skýra framtíðarsýn um verkaskiptingu utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis í varnar- og öryggismálum."

Á vef utanríkisráðuneytisins segir að með þessu skapist möguleikar á róttækri endurskipulagningu stofnana sem fara með öryggismál sem séu til þess fallin að einfalda og skýra stjórnsýslulegt forræði málaflokksins.

„Umrædd breyting mun ekki hafa efnisleg áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar Íslands, s.s. þátttöku í starfi Atlantshafsbandalagsins, varnarsamninginn við Bandaríkin eða annað fjölþjóðlegt samstarf um öryggismál. Utanríkisráðuneytið mun eftir sem áður hafa forræði yfir utanríkispólitískum þáttum á borð við samskipti við NATO," segir á vef utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×