Innlent

Einstök íbúakosning sem fáir vita af

Hanna Birna segir ekki útilokað að íbúakosning sem nú stendur yfir verði endurtekin í framtíðinni. Fréttablaðið/Valli
Hanna Birna segir ekki útilokað að íbúakosning sem nú stendur yfir verði endurtekin í framtíðinni. Fréttablaðið/Valli
Borgarbúum hefur frá því í fyrradag gefist kostur á að kjósa á netinu um forgangsröðun fjármuna til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í hverfum borgarinnar. Kosningin er í tengslum við fjárhagsætlun næsta árs og geta íbúar einungis kosið um þróun mála í sínum eigin hverfum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri greiddi fyrsta atkvæðið á miðvikudag. Hún segir það hafa verið sameiginlega ákvörðun borgar­yfirvalda allt kjörtímabilið að leggja aukna áherslu á aukið íbúalýðræði og sé netkosningin mikilvægur liður í því. Unnið hefur verið með íbúasamtökum í borginni ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands að verkefninu frá í haust. „Með þessu viljum við auka áhrif íbúa á nærumhverfi þeirra,“ segir hún.

Kosningin stendur yfir á sama tíma og umræða um fjárhagsáætlun borgarinnar stendur yfir. Netkosningin er bindandi og verður borgarstjórn að lúta niðurstöðum hennar.

Lítið hefur farið fyrir kosningunni og vissu fáir af henni sem Fréttablaðið ræddi við í gær. Borgar­stjóri segir ekki hafa verið blásið til auglýsingaherferðar til að kynna kosninguna. Íbúasamtök séu upplýst. Hún segir ekki útilokað að kosning sem þessi verði endurtekin í framtíðinni. „Ég vona að þetta verði fyrsta skrefið,“ segir hún.

jonab@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×