Innlent

Allir spá í það hvað gæti gerst í Kópavogi

Ólafur Þór Gunnarsson
Ólafur Þór Gunnarsson Mynd/Hörður

„Ég hef sjálfur heyrt þennan orðróm," segir Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi vinstri grænna, spurður hvort sjálfstæðismenn hafi boðið honum sæti bæjarstjóra hefji hann meirihlutasamstarf með þeim.

„Auðvitað hef ég rætt við bæjar­fulltrúa Sjálfstæðisflokksins eins og aðra bæjarfulltrúa um það hvaða staða gæti komið upp en það hefur enginn sem hefur eitthvert umboð haft samband við mig, né get ég litið svo á að einhver hafi verið að bjóða mér neitt í þessa veru."

Gunnsteinn Sigurðsson, annar maður á lista Sjálfstæðisflokks, segir ekkert þessu líkt standa til né heldur að verið sé að leita að nýjum bæjarstjóra utan raða bæjar­fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Spurður hvort þá sé ekki borðleggjandi að búið sé að ákveða að annað hvort hann eða Ármann Kr. Ólafsson, sem er í þriðja sæti, verði næsti bæjarstjóri, svarar Gunnsteinn: „Ég segi ekkert um það, þetta kemur í ljós á mánudaginn."

Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, var einnig spurður hvort hann hefði heyrt af því að sjálfstæðismenn hefðu reynt að fá Ólaf til samstarfs. „Nei, ég hef ekki heyrt af því en ég hef enga trú á því að hann sé svo vitlaus að ljá máls á slíku," svarar hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×