Innlent

Landlæknir varar við fíkniefnastríði

Landlæknir segir að ýmis rök megi færa fyrir því að frjálslyndari stefna um notkun kannabisefna þurfi ekki að leiða til versnandi ástands. Hann vísar í rannsóknir sem bendi til að efnið sé lítt ávanabindandi, miðað við önnur vímuefni.

Landlæknir minnist á „þær ógöngur" sem fylgt hafi hinu bandaríska „stríði gegn fíkniefnum", þar sem fangelsin séu yfirfull af fólki sem hafi hlotið dóma vegna vímuefna. Einnig bendir hann á jákvæða reynslu Portúgala af frjálslyndi. „Nauðsynlegt er að dæmi sem þessi séu tekin til fordómalausrar umræðu," segir Matthías Halldórsson landlæknir.

Þetta kemur fram í svarbréfi hans við umkvörtunum Ólafs Skorrdal, sem er áhugamaður um lögleiðingu kannabisefna. Ólafur hafði gert athugasemdir við ummæli á heimasíðu SÁÁ og við ýmsar staðhæfingar formanns SÁÁ, Þórarins Tyrfingssonar læknis. Þórarinn hefur talað um tengsl kannabisefna og harðari efna og um „kannabisbullurnar", sem berjist fyrir lögleiðingu efnanna.

Landlæknir hvetur Þórarin til að vera málefnalegan; hann sé í þeirri óvenjulegu aðstöðu að vera yfirlæknir og um leið formaður samtaka í fjárþörf. Stundum heyrist sú gagnrýni að málflutningur hans sé áróðurskenndur.

Landlæknir vísar í nokkrar rannsóknir sem segja kannabisefni lítið ávanabindandi miðað við önnur vímuefni, svo sem áfengi og tóbak. Institute of Medicine í Bandaríkjunum segir til að mynda að 32 prósent tóbaksneytenda verða háð tóbaki og 23 prósent heróínneytenda verði háð heróíni. Sautján prósent neytenda kókaíns verði háð því og fimmtán prósent alkóhólneytenda verði háð áfengi. Níu prósent kannabisneytenda verði hins vegar háð kannabisefnum. Svipuð tala sé nefnd í riti sænsku heilbrigðis­stjórnarinnar. Efnið mælist lítt ávanabindandi víðar.

Þrátt fyrir þetta sé víst að kannabis­neytendur leiðist stundum út í neyslu harðari efna, hvort sem þar sé um orsakasamband að ræða eða ekki, eins og rannsókn úr Science-tímaritinu bendi til.

Landlæknir vísar í framhaldinu í skýrslu SÁÁ, þar sem segir að þegar neytandinn kaupi efnið „læri [hann] lögmál vímuefnamarkaðarins" og kynnist sölumönnum sem seinna selji honum önnur efni.

Landlæknir vekur að lokum athygli á því að ástæða sé til að fara með gát, enda bendi rannsóknir til að lítið brot kannabisneytenda sé líklegt til að þróa með sér geðsjúkdóma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.